STEFNT er að því að lækka kostnað við uppbyggingu hins sænska kerfis fyrir þriðju kynslóð farsíma, svokallaðra G3, um helming.

STEFNT er að því að lækka kostnað við uppbyggingu hins sænska kerfis fyrir þriðju kynslóð farsíma, svokallaðra G3, um helming. Símafyrirtækin fjögur sem hrepptu hnossið í umtöluðu útboði á síðasta ári hafa ákveðið að eiga samráð um uppbygginguna sem mun að öllum líkindum lækka kostnaðinn úr 950 milljörðum ísl. kr. í 425 milljarða.

Fyrirtækin fjögur hyggjast nýta sömu möstur, senda o.fl. Samkvæmt reglum sænsku símamálastofnunarinnar er þeim leyfilegt að samnýta 70% en hvert um sig verður að legga 30% til sjálft. Að sögn Svenska dagbladet hafa engar efasemdir verið látnar í ljós um hvort fyrirtækjunum tekst að koma kerfinu upp á réttum tíma. Það á að vera tilbúið í árslok 2003 en fyrstu notendurnir eiga að geta kveikt á símum sínum í janúar nk. Það vakti gríðarlega athygli á sínum tíma þegar G3-farsímakerfið, eða UMTS, var boðið út að Telia, sem er að stærstum hluta í eigu sænska ríkisins, skyldi ekki hljóta leyfi. Mun minni fyrirtæki; Europolitan, Hi3G, Orange og Tele2, skiptu fengnum með sér. Gerðu þau ráð fyrir að kostnaðurinn yrði upp undir 1.000 milljarðar, mestur hjá tveimur fyrstnefndu; 250 og 350 milljarðar, 180 milljarðar hjá Orange og 160 milljarðar hjá Tele2. Nú hafa Hi3G, Europolitan og Orange stofnað dreifingarfyrirtæki, Infrastructure Services AB sem setja mun upp kerfi sem nær til um 70% íbúanna. Þá hefur Tele2 tekið upp samstarf við Telia sem hyggst bjóða viðskiptavinum sínum upp á UMTS þjónustu þrátt fyrir að fyrirtækið reki ekki eigið kerfi. Segir Henrik Ringmar, framkvæmdastjóri Svenska UMTS Nät AB, fyrirtækis Tele2 og Telia, að sparnaðurinn nemi líklega um helmingi.

Kaupmannahöfn. Morgunblaðið.