FINNSKA farsímafyrirtækið Nokia hefur ákveðið að veðja á MMS, myndskilaboð, sem arftaka SMS skilaboða í farsímum.

FINNSKA farsímafyrirtækið Nokia hefur ákveðið að veðja á MMS, myndskilaboð, sem arftaka SMS skilaboða í farsímum. Kveðst forstjóri framleiðsludeildar Nokia, Olli-Pekka Lintula, reikna með því að MMS muni slá í gegn á næstunni og væntir þess að það muni hafa í för með sér stóraukna eftirspurn eftir nýjum tegundum farsíma, svo og aukna notkun.

Áhugi neytenda mikill

Vinsældir SMS eru orðnar meiri en nokkurn óraði fyrir og segir Lintula í samtali við Svenska Dagbladet að MMS sé af sama meiði og bjóði upp á meira af því sem fólk hafi reynst sækjast eftir. MMS gefur kost á að senda t.d. ljósmyndir í skilaboðum.

Lintula segir Nokia hafa kannað áhuga neytenda á slíkri þjónustu og hann hafi reynst mikill. Nefnir Lintula sem dæmi að menn geti tekið myndir með farsímanum og sent sem skilaboð. Á hann einkum von á því að þessi þjónusta verði notuð af einstaklingum, ekki svo mikið af fyrirtækjum sem sendi út fjöldaskilaboð til farsíma.

Fyrsti síminn væntanlegur frá Ericsson undir lok ársins

Þjónustan verður tæplega ókeypis, reiknað er með því að hún muni kosta á milli 35-70 íslenskar krónur á skilaboð. Nokia hyggst nær eingöngu bjóða upp á farsíma sem geti móttekið MMS skilaboð frá og með næsta ári en aðeins hluti þeirra mun geta sent skilaboðin. Þeir verða ýmist með innbyggðri myndavél eða að hægt verður að tengja þá við stafræna vél. Fyrsti MMS farsíminn sem kemur á markað verður þó frá einum höfuðkeppinautanna, Ericsson, en hann kallast T68 og er væntanlegur á markað undir lok ársins.

Kaupmannahöfn. Morgunblaðið.