Sólgleraugun á myndinni eru frá Max Mara, Piave og Matsuda/Linsan, Theo/Sjáðu, Carolina Herrera/Optik og Prada/Augað
Sólgleraugun á myndinni eru frá Max Mara, Piave og Matsuda/Linsan, Theo/Sjáðu, Carolina Herrera/Optik og Prada/Augað
ÍSLENSKA sumarið er stutt, en íslenska sólin er hinsvegar lengi - og stundum lágt - á lofti, og þess vegna óvíða meiri nauðsyn á að vera með góð sólgleraugu á nefinu.

ÍSLENSKA sumarið er stutt, en íslenska sólin er hinsvegar lengi - og stundum lágt - á lofti, og þess vegna óvíða meiri nauðsyn á að vera með góð sólgleraugu á nefinu. Daglegt líf heimsótti nokkrar gleraugnabúðir til þess að kynnast því nýjasta í sólgleraugnatískunni í ár.

Jóhanna Linnet hjá Auganu í Kringlunni selur meðal annars sólgleraugu frá ítalska tískuhúsinu Prada, sem hún segir vera leiðandi í hönnun sólgleraugna. Að sögn Jóhönnu er kjörorð dagsins í þessum efnum: Því stærra - því betra. Hún telur sólgleraugnatískuna hafa verið keimlíka undanfarin ár, en að nú kveði við nýjan tón. Það birtist til dæmis í umgjörðum og glerjum í sama lit, og þá gjarnan í bleikum, bláum og appelsínugulum litbrigðum. "Two-tricky hópurinn kom og fékk lánuð þannig sólgleraugu hjá okkur fyrir Eurovision-myndbandið," segir Jóhanna.

Hjá Linsunni í Aðalstræti urðu þær Þórunn Hreinsdóttir og Brigitte Lúthersson fyrir svörum. Þær segja að litagleðin sé mjög áberandi í sumar; bleikt er í tísku og á það jafnt við um fatnað og fylgihluti eins og sólgleraugu. Þær bentu einnig á að nú væri í tísku að láta litinn í glerinu dofna neðst. Þær taka í sama streng og Jóhanna: "Nú eiga sólgleraugu að vera stór."

Næst lá leiðin í verslunina Optik í Aðalstræti þar sem Halldóra Jónsdóttir var beðin um að segja frá því nýjasta í sólgleraugnafræðunum. "Það sem er mest í tísku er það sem ég kalla puntgleraugu, sem hafa í raun afar lítið með sól að gera," segir Halldóra. Þetta eru gleraugun sem eru ómissandi í rökkri skemmtistaðanna, bleikt, ljósblátt og drappað er vinsælast. Stór og klossuð gleraugu í dökkum litum eru líka í tísku að sögn Halldóru. "Gleraugun eiga að vera eins stór og klossuð og hver og einn þolir á andlitið á sér," segir hún.

Síðasti viðkomustaðurinn í þessum leiðangri var verslunin Sjáðu á Laugaveginum, en þar hittum við eigandann, Gylfa Björnsson. Gylfi selur gleraugu frá belgíska fyrirtækinu Theo, en hönnun þeirra er á margan hátt framúrstefnulegri en flest það annað sem fyrir augu bar í þessari markaðskönnun. Þrátt fyrir það gætir sömu áhrifanna og hjá hinum framleiðendunum: Leikur með liti í bleiku, bláu og brúndröppuðu er áberandi. Gylfi segir að hefðbundin sólgleraugu séu alltaf vinsæl hjá vissum aldurshópum, en sjálfur hafi hann mest gaman af dálítið "fríkuðum" og frumlegum gleraugum, og það sé reyndar stefna hjá sér að höfða til þeirra sem vilja öðruvísi gleraugu.

Ætli það sama gangi fyrir karla og konur í sólgleraugnatískunni? Viðmælendur voru almennt sammála um að karlar væru íhaldssamari þegar kæmi að því að velja sér sólgleraugu; þeir vilja lítið áberandi gleraugu, gjarnan gamla flugmannsformið, en konur eru spenntari fyrir að gera tilraunir og reyna eitthvað nýtt.

- rh