HUGMYNDIR um kynbundin einkenni í tengslum við foreldrahlutverkið, stjórnunarhæfileika, tilfinninganæmi og áhuga á kynlífi eru enn ríkjandi meðal landsmanna en þessir þættir eru meðal þess sem mælt er í nýjum þjóðarpúlsi Gallup.

HUGMYNDIR um kynbundin einkenni í tengslum við

foreldrahlutverkið, stjórnunarhæfileika, tilfinninganæmi og áhuga á kynlífi eru enn ríkjandi meðal landsmanna en þessir þættir eru meðal þess sem mælt er í nýjum þjóðarpúlsi Gallup.

Markmiðið með könnuninni var að skoða hvort jafnréttislög og nýleg lög um fæðingarorlof hafi haft áhrif á hugmyndir landsmanna um hlutverk og einkenni kynjanna.

Um 33% svarenda í könnuninni telja konur hæfari foreldra en karla og athygli vekur að karlar virðast bera minna traust til sín sem foreldra en konur, því um 40% þeirra telja að konur séu hæfari foreldrar en karlar.

Lítill munur reyndist á skoðunum fólks um hvort annað kynið sé hæfara til að sinna stjórnunarstöðum. Um 15% þátttakenda telja karla hæfari stjórnendur en konur en tæp 26% aðspurðra töldu konur hæfari en karla.

Landsmenn virðast telja að konur séu tilfinninganæmari en karlar eða um 70% þeirra sem þátt tóku í könnuninni. Karlar álíta að konur séu tilfinninganæmari en þær gera sjálfar og mikill meirihluti svarenda, eða 86%, telja að karlar beri vandamál sín síður á torg en konur.

Um 40% þátttakenda telur karla áhugasamari um kynlíf en konur, en yngsti hópurinn er þessu síst sammála. Þeirrar tilhneigingar gætir reyndar hvað flesta þættina varðar, svo virðist sem yngra fólk aðhyllist síður hugmyndir um kynbundin mun í þeim þáttum sem könnunin tók til. Þetta gildir þó ekki um afstöðu fólks til þess hvort konur séu konum verstar en rúm 50% svarenda telur að svo sé. Í þessum hópi er ungt fólk fjölmennara en þeir sem eldri eru og konur virðast frekar á þessari skoðun en karlar.