Þorsteinn Siglaugsson rekstrarhagfræðingur kynnti skýrslu um mat á líklegri arðsemi Kárahnjúkavirkjunar.
Þorsteinn Siglaugsson rekstrarhagfræðingur kynnti skýrslu um mat á líklegri arðsemi Kárahnjúkavirkjunar.
SAMKVÆMT skýrslu sem Þorsteinn Siglaugsson rektstrarhagfræðingur vann fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands verður tap af Kárahnjúkavirkjun 22-51 milljarður króna.

SAMKVÆMT skýrslu sem Þorsteinn Siglaugsson rektstrarhagfræðingur vann fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands verður tap af Kárahnjúkavirkjun 22-51 milljarður króna. Hann kemst að þeirri niðurstöðu að engar líkur séu til þess að Kárahnjúkavirkjun geti staðið undir kröfum fjárfesta og lánveitenda um lágmarksarðsemi. Til þess sé stofnkostnaður of hár og væntanlegt orkuverð of lágt.

Skýrslan var kynnt á blaðamannafundi sem Náttúruverndarsamtök Íslands boðuðu til í gær.

Þorsteinn gefur sér þær forsendur að stofnkostnaður virkjunarinnar verði 107 milljarðar. Ávöxtunarkrafa lánsfjár verði 4,07-4,67% og ávöxtunarkrafa hlutafjár 6,87-9,96%.

Þorsteinn segir að samkvæmt raunsæju mati megi ætla að tap af virkjuninni verði 37-39 milljarðar.

Hann gerir ráð fyrir meðaltalsávöxtunarkröfu, orkuverð sé 2 krónur á kílówattstund og að orkusala sé örugg í 60 ár. Samkvæmt bjartsýnasta mati Þorsteins verður tapið 22-24 milljarðar en 50-51 milljarður sé miðað við svartsýnasta matið. Þessar áætlanir miðast við fullbyggða virkjun. Tap af fyrri áfanganum yrði mun meira en af þeim síðari.

Þorsteinn miðar útreikninga sína við 60 ára endingartíma virkjunarinnar. Aðspurður sagði hann að þótt virkjunin yrði eilíf myndi tapið aðeins minnka um hálfan milljarð eða svo.

Þrátt fyrir að Kárahnjúkavirkun verði fullbyggð um fjórfalt stærri en Fljótsdalsvirkjun sem var fyrirhuguð kemst Þorsteinn að þeirri niðurstöðu að Kárahnjúkavirkjun verði 26% óhagkvæmari. Stofnkostnaður á hverja gígawattstund verði 219 milljónir í Kárahnjúkavirkjun, hefði orðið 196 milljónir í Fljótsdalsvirkjun en er aðeins 163 milljónir í Vatnsfellsvirkjun.

Ávöxtunarkrafa ekki geðþóttaákvörðun

Þorsteinn segir að miðað við núverandi gengi íslensku krónunnar verði kostnaður við virkjunina 107 milljarðar. Ekki megi þó mikið út af bregða til að stofnkostnaður aukist verulega, enda framkvæmdin afar flókin. Við gerð skýrslunnar hafi þó ekki verið tekið tillit til þess.

Samkvæmt raunsæju mati þurfi orkuverð að vera 2,70 krónur á kílówattstund (kwst.) til að virkjunin geti staðið undir sér.

Í skýrslunni kemur hins vegar fram að samkvæmt reikningum Landsvirkjunar hafi meðalorkuverð til stóriðju verið 88 aurar á kwst. árið 1988, 90 aurar á kwst. árið 1999 og ein króna á síðasta ári. Álverið gæti þó aldrei staðið undir hærra orkuverði en 2 krónum á kwst. nema álverð myndi hækka gríðarlega en ekkert bendi til þess.

Þorsteinn telur að staðsetning álversins á Austfjörðum hafi væntanlega í för með sér talsvert meiri áhættu varðandi greiðan aðgang að vinnuafli og þjónustu en væri álverið á þéttbýlla svæði. Því megi gera ráð fyrir að orkuverð til Reyðaráls verði nær lægri mörkunum en þeim hærri.

Þorsteinn segir að þess misskilnings virðist stundum gæta í umræðu um virkjunarmál hérlendis, að ávöxtunarkrafa sé með einhverjum hætti geðþóttaákvörðun stjórnvalda eða rekstraraðila. Þetta sé grundvallarmisskilningur. Eðlileg ávöxtunarkrafa ráðist einungis af þeirri ávöxtun sem markaðurinn krefst af sambærilegum rekstri. Fjármununum sem ætti að verja til byggingar Kárahnjúkavirkjunar væri betur varið með því að fjárfesta í arðbærari fyrirtækjum, t.d. öðrum álfyrirtæjum, s.s. Alcan eða Alcoa. Ávöxtunarkrafan myndi ekki breytast þótt lánin yrðu ríkistryggð. Áhættan réðist ávallt af arðsemi verkefnisins.

Myndi ríkið gangast í ábyrgð fyrir lánum myndi lánshæfni þess á fjármagnsmarkaði versna og því myndi ríkið fá lakari vaxtakjör.

Þá bendir hann á að gert sé ráð fyrir að rekstur virkjunarinnar verði nær alfarið háður raforkusölu til álvers og verði í raun hluti af rekstri þess. Leggist álverksmiðjan af yrðu skyndilega engin not fyrir raforkuna. Áhættan við virkjunina sé því sambærileg og áhætta í álrekstri. Reyndar yrði mögulegt að selja orkuna til annarra kaupenda en ólíklegt væri að hægt yrði að ná fram verði sem væri mikið fram yfir rekstrarkostnað.

Þjóðhagslegur ávinningur ekki það sama og arðsemi

Meginniðurstaða Landsvirkjunar um umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkunar var að jákvæð efnahagsleg áhrif virkjunar myndu vega upp neikvæð umhverfisáhrif. Þá komst Þjóðhagsstofnun að þeirri niðurstöðu að verkefnið í heild myndi hafa jákvæð áhrif á þjóðarframleiðslu og landsframleiðslu. Neikvæð áhrif á viðskiptajöfnuð myndu jafnast út vegna aukins útflutnings.

"Vissulega myndi bygging og rekstur álvers við Reyðarfjörð hafa jákvæð áhrif á þjóðarframleiðslu hér á landi. Það gera hins vegar allar framkvæmdir, enda mælir þjóðarframleiðsla ekki arðsemi framkvæmda, heldur aðeins þá aukningu viðskipta í efnahagskerfinu sem þær hafa í för með sér," segir í skýrslunni.

Þorsteinn sagði á blaðamannafundinum að það gæti aukið þjóðarframleiðslu að stofna fyrirtæki og senda þúsund manns upp á hálendi til að mala grjót, flytja grjótið síðan til Færeyja með árabátum og selja það þar á eina krónu kílóið. Framkvæmdin myndi auka umsvif í efnahagslífinu og þar með þjóðarframleiðslu en að sjálfsögðu yrði tap á grjótvinnslunni.

Þjóðgarður arð- bærari en virkjun

Árni Finnsson, framkvæmdastjóri Náttúruverndarsamtaka Íslands, sagði að enn ætti eftir að meta verndargildi hálendisins norðan Vatnajökuls en í skýrslunni var ekki tekið tillit til hugsanlegs verðmætis þess. Árni sagði að Náttúruvernd ríkisins ynni nú að slíku mati en hefði fengið afar takmarkað fjármagn til þess. Hann benti á að menn hefðu nefnt að þjóðgarður norðan Vatnajökuls myndi kosta um 500 milljónir sem væri lítið miðað við áætlað tap af virkjuninni. Það gæti vel verið að þjóðgarður yrði arðbærari en virkjun þegar til lengri tíma væri litið.

Þá minnti hann á að Landsvirkjun væri að 50% í eigu ríkisins, 45% í eigu Reykjavíkurborgar og Akureyrarbær ætti 5%. Um 10-30 milljarðar af skattfé og útsvari færu til framkvæmdanna en ekkert benti hins vegar til þess að arður skilaði sér til baka. "Til hvers er verið að skattpína okkur til að Landsvirkjun geti leikið sér með virkjun?" spurði Árni.