Á FUNDI samninganefnda Félags tónlistarskólakennara og Félags íslenskra hljómlistarmanna, sem haldinn var þriðjudaginn 5. júní 2001, var ákveðið að vísa kjaradeilu þeirra við samninganefnd launanefndar sveitarfélaga formlega til ríkissáttasemjara.

Á FUNDI samninganefnda Félags tónlistarskólakennara og Félags íslenskra hljómlistarmanna, sem haldinn var þriðjudaginn 5. júní 2001, var ákveðið að vísa kjaradeilu þeirra við samninganefnd launanefndar sveitarfélaga formlega til ríkissáttasemjara. Þessi ákvörðun var tilkynnt í bréfi til Þóris Einarssonar ríkissáttasemjara í gær.

Tónlistarskólakennarar gerðu í janúar skammtímasamning við viðsemjendur sína. Því var þá lýst yfir að stefnt væri að því að hefja samningaviðræður á ný 15. apríl og ljúka endanlegri gerð nýs kjarasamnings fyrir 31. maí 2001.

Viðræður fóru seint í gang í vor og hafa þær einkennst af nær algeru áhugaleysi af hálfu samninganefndar launanefndar sveitarfélaga á því að ná samkomulagi um nýjan kjarasamning, segir í frétt frá tónlistarskólakennurum. Þeir krefjast þess að launakjör þeirra verði færð til samræmis við kjör annarra kennara í landinu.