LANDSMENN virðast almennt þeirrar skoðunar að verkföll séu nauðsynlegt tæki í kjarabaráttu en skoðanir eru þó skiptar eftir því um hvaða starfsstéttir er að ræða. Þetta kemur fram í nýjum þjóðarpúlsi Gallup.

LANDSMENN virðast almennt þeirrar skoðunar að verkföll séu nauðsynlegt tæki í kjarabaráttu en skoðanir eru þó skiptar eftir því um hvaða starfsstéttir er að ræða. Þetta kemur fram í nýjum þjóðarpúlsi Gallup.

Tæplega 59% landsmanna telja verkföll áhrifaríka leið í kjarabaráttu og hafa yngri þátttakendur meiri trú á þessu en þeir sem eldri eru. Þá eykst tiltrú á verkföll með hærra menntunarstigi. Kjósendur stjórnarandstöðuflokkanna hafa jafnframt meiri trú á verkfallsaðgerðum en þeir sem styðja ríkisstjórnarflokkana.

Skiptar skoðanir eru hins vegar um hvaða stéttir eigi að hafa verkfallsrétt. Í könnun Gallup var spurt um afstöðu til verkfallsréttar nokkurra stétta. Meirihluti landsmanna er hlynntur rétti kennara og sjómanna til að grípa til verkfallsaðgerða, 75% þátttakenda eru hlynntir verkfallsrétti kennara og 86% eru fylgjandi verkfallsrétti sjómanna. Tæplega 67% finnst að verkfallsréttur eigi að vera hluti af réttindum hjúkrunarfræðinga og tæp 59% eru sammála því að lögreglumenn eigi að hafa verkfallsrétt.