MIKLAR sveiflur hafa einkennt gengi krónunnar að undanförnu og veltan á gjaldeyrismarkaði hefur aldrei verið meiri.

MIKLAR sveiflur hafa einkennt gengi krónunnar að undanförnu og veltan á gjaldeyrismarkaði hefur aldrei verið meiri. Þrefalt meiri sveiflur hafa verið á gengi krónunnar í maí en mest hefur orðið á einum mánuði síðan gjaldeyrismarkaður var settur á laggirnar hér á landi á síðasta áratug, samkvæmt því sem fram kemur í Markaðsyfirliti Íslandsbanka-FBA. Bent er á að gengissveiflur aukist oft tímabundið í kjölfar þess að mynt er sett á flot því markaðurinn sé að fóta sig í nýju umhverfi. Einnig hafi krónan staðið nærri vikmörkum þegar þau voru afnumin og það auki sveiflur.

Þykir flest benda til þess að sveiflur í gengi krónunnar verði áfram miklar, annars vegar vegna smæðar íslenska gjaldeyrismarkaðarins, en Ísland er minnsta ríki í heimi sem tekið hefur upp hreint verðbólgumarkmið og flotgengisstefnu, og hins vegar vegna ytra ójafnvægs í hagkerfinu og óvissu á markaðinum.

Minna magn fjármagns hefur flætt inn í landið

Samkvæmt markaðsyfirlitinu þróast krónan í samræmi við veltu á gjaldeyrismarkaðinum. Þá segir að það sé iinkennandi fyrir veltuna undanfarið að erlendar lántökur hafa minnkað og þar með hefur minna magn fjármagns flætt inn í landið. Þessi þróun hefur átt sér stað þrátt fyrir að munur innlendra og erlendra vaxta hafi aukist. Hinn mikli vaxtamunur virðist ekki duga til þess að tryggja innflæði fjármagns. Versnandi útlit í efnahagsmálum, miklar gengissveiflur og auknar skuldir heimila og fyrirtækja hér á landi eru einnig til þess fallin að draga enn úr flæði fjármagns inn í landið. Þessi þróun hefur átt stóran þátt í veikingu krónunnar að undanförnu. Á hinn bóginn hefur nokkuð dregið úr útflæði fjármagns og munar þar mest um samdrátt í viðskiptum með erlend verðbréf. Á fyrstu fjórum mánuðum þessa árs var hreint fjárútflæði vegna kaupa á erlendum verðbréfum 5,7 milljarðar króna samanborið við 21,4 milljarða á sama tíma í fyrra. Enn um sinn verður þó um fjármagnsútflæði að ræða, þótt það sé minna nú en á síðasta ári.

Litlar fjárfestingar erlendra aðila

Í Markaðsyfirliti Íslandsbanka-FBA kemur fram að fjárfestingar erlendra aðila í innlendum verðbréfum séu það litlar að vart sé hægt að tala um ráðandi þátt í gengisþróun. Þessar fjárfestingar hafi farið vaxandi en þess sé hins vegar ekki að vænta að þær glæðist mikið á næstu misserum og kemur þar ekki síst til óvissa um þróun krónunnar.