JAPANIR mæta heimsmeisturum Frakka í úrslitaleik álfukeppninnar í knattspyrnu á sunnudag en þeir sigruðu Ástrala 1:0 á heimavelli í grenjandi rigningu fyrir framan tæplega 50.000 áhorfendur í gær. Frakkar lögðu síðar um daginn Brasilíumenn að velli þar sem Chelsea-leikmaðurinn Marcel Desailly skoraði úrslitamarkið þegar rúmur hálftími lifði leiks.

Þetta var í fyrsta sinn sem Frakkar og Brasilíumenn mættust síðan Frakkar unnu 3:0-sigur í úrslitum heimsmeistaramótsins fyrir þremur árum. Robert Pires kom heimsmeisturunum yfir á 7. mínútu er hann lyfti boltanum snyrtilega yfir markvörð Brasilíu fyrir framan tæplega 35.000 áhorfendur í S-Kóreu. Ramon jafnaði eftir hálftíma leik með marki beint úr aukaspyrnu. Desailly skoraði síðan úrslitamarkið á 54. mínútu með skalla af stuttu færi eftir aukaspyrnu frá Youri Djorkaeff.

Frakkar hefðu átt að klára leikinn á fyrsta hálftímanum en þá fengu þeir þrjú dauðafæri. Þeir voru betri aðilinn mestallan leikinn enda tefldi Brasilía fram hálfgerðu varaliði. Frakkar voru síðan nær því að auka muninn frekar en Brasilíumenn að jafna undir lokin.

Það má þakka verkfræðingum vallarins að leikur Japana og Ástrala gat farið fram því á flestum öðrum völlum hefði honum verið aflýst vegna rigningar. Í staðinn rann bleytan í gegnum völlinn og því hafði rigningin ekki eins slæm áhrif og á horfðist.

Hidetoshi Nakata, leikmaður Roma, skoraði úrslitamarkið beint úr aukaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks og áttu Ástralar ekkert svar. Óvíst er hvort hann leiki úrslitaleikinn á sunnudag þar sem Roma getur náð í ítalska titilinn um helgina í fyrsta skiptið í 18 ár er liðið mætir Napolí í næstsíðustu umferð ítölsku deildarinnar. Nakata, sem var langbestur í liði Japana, þarf því að ákveða sig í dag hvort hann muni leika úrslitaleikinn eða ekki.

Japanir þurftu að hafa fyrir sigrinum þar sem framherjinn Takaqyki Suzuki var rekinn útaf á 55. mínútu fyrir brot. Ástralar sóttu nær sleitulaust en uppskáru ekkert mark og var Craig Moore úr liði þeirra vikið af leikvelli undir lok leiksins fyrir slæma tæklingu.

Philippe Troussier, þjálfari Japana, lofaði leikmenn sína í hástert eftir leikinn. "Við vorum heppnir en vörnin hélt góðu jafnvægi í leik sínum og ég sá að leikmennirnir ætluðu að sækja sigur. Við viljum gjarnan hefna okkur á Frökkunum," sagði Troussier en Frakkar unnu þá 5:0 í París í mars.