MORGUNBLAÐINU hefur borist eftirfarandi ályktun stjórnar Eflingar - stéttarfélags. "Á undanförnum vikum hafa leitað aðstoðar hjá félaginu listdansarar á nektardansstöðum vegna deilna við atvinnurekendur sína um kaup og kjör.

MORGUNBLAÐINU hefur borist eftirfarandi ályktun stjórnar Eflingar - stéttarfélags.

"Á undanförnum vikum hafa leitað aðstoðar hjá félaginu listdansarar á nektardansstöðum vegna deilna við atvinnurekendur sína um kaup og kjör. Í ljós hefur komið við athugun Eflingar - stéttarfélags að ráðningarsamningar og atvinnuleyfi umræddra kvenna eiga ekki við rök að styðjast. Verður ekki betur séð en að ráðuneytinu hafi fyrir og við útgáfu atvinnuleyfa verið gefnar rangar upplýsingar um ráðningarkjör og fram hafa komið skriflegir samningar, sem byggt er á, allt annars efnis og sem eiga enga stoð í íslenskum kjarasamningum.

Efling - stéttarfélag lítur svo á að þessi háttsemi eigenda viðkomandi nektardansstaða gagnvart félagsmálaráðuneytinu, einkum röng tilgreining í opinberum skjölum, varði við hegningarlög auk þess sem mannréttindi virðast brotin á listdönsurunum. Ekki er unnt að gæta réttar viðkomandi starfsmanna á grundvelli ráðningarsamninga sem orðið hafa til með þessum hætti. Það hlýtur að vera í verkahring opinberra aðila sem skrifa upp á atvinnuleyfin að ganga úr skugga um að verið sé að gefa réttar upplýsingar um launa- og starfskjör. Stjórn Eflingar - stéttarfélags fordæmir þau brot á mannréttindum sem fram hafa komið að viðgangast á nektarklúbbum og skorar á yfirvöld að beita sér gegn þessari starfsemi.

Stjórn Eflingar - stéttarfélags skorar hér með á félagsmálaráðuneytið að gefa ekki út atvinnuleyfi til þeirra sem hlut eiga að máli. Telji ráðuneytið sig ekki geta orðið við því er félagsmálaráðuneytinu bæði rétt og skylt að gefa ekki út slík leyfi nema að undangenginni rækilegri könnun á raunverulegum starfskjörum og fylgjast síðan með hvort farið sé að skilmálum útgefinna atvinnuleyfa og ráðningarsamninga".