RÍKISÚTVARPIÐ hefur hafið innheimtu útvarpsgjalds af fyrirtækjum vegna útvarpstækja í fyrirtækjabílum. Um er að ræða nýja lagaframkvæmd en Samtök atvinnulífsins segja að innheimtan byggist á reglugerðarákvæði sem ekki eigi sér ótvíræða stoð í lögum.

RÍKISÚTVARPIÐ hefur hafið innheimtu útvarpsgjalds af fyrirtækjum vegna útvarpstækja í fyrirtækjabílum. Um er að ræða nýja lagaframkvæmd en Samtök atvinnulífsins segja að innheimtan byggist á reglugerðarákvæði sem ekki eigi sér ótvíræða stoð í lögum.

Fjallað er um málið í fréttabréfi samtakanna, sem kom út í gær, en þar segir m.a. að óviðunandi sé að fyrirtæki séu krafin um opinber gjöld án ótvíræðrar lagastoðar.

Bent er á að í lögum um Ríkisútvarpið sé hvergi minnst á sérstaka gjaldtöku vegna útvarpa í bifreiðum, hvorki einkabifreiðum né atvinnubifreiðum. Löggjafinn veiti hins vegar heimild til afslátta til fyrirtækja og stofnana vegna fjölda viðtækja á sama stað. Þetta megi skilja svo að ekki hafi verið höfð í huga gjaldheimta vegna tækja sem eru í bílum eða í fórum einstaklinga á ferð og flugi.

"Einstök fyrirtæki munu hafa samið við RÚV um verulegan afslátt af umræddu gjaldi með tilliti til fjölda fyrirtækjabíla. Viðkomandi fyrirtæki eru seinþreytt til vandræða og hafa kosið að ganga til samninga við RÚV um upphæð gjaldsins. Engin ákvæði eru hins vegar um slíkan afslátt í gildandi reglugerð. Þar er hins vegar að finna ítarleg ákvæði um afslátt vegna fjölda sjónvarpa og útvarpa í sjúkrahúsum, gistihúsum, skipum og víðar," segir ennfremur í fréttabréfinu.