Nýstúdentinn með þeim þrem sem hafa fylgt honum gegnum súrt og sætt í námi og þjálfun,  f.v. Jón Thorarensen skólabílstjóri, Gunnar Leifsson sjúkraþjálfari og Hörður Ásgeirsson, sérkennari  á Selfossi.
Nýstúdentinn með þeim þrem sem hafa fylgt honum gegnum súrt og sætt í námi og þjálfun, f.v. Jón Thorarensen skólabílstjóri, Gunnar Leifsson sjúkraþjálfari og Hörður Ásgeirsson, sérkennari á Selfossi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÞAÐ var stór stund í lífi Gunnars Ásbergs Helgasonar sem búsettur er í Lambhaga á Rangárvöllum um sl. helgi er hann útskrifaðist sem stúdent frá Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi.

ÞAÐ var stór stund í lífi Gunnars Ásbergs Helgasonar sem búsettur er í Lambhaga á Rangárvöllum um sl. helgi er hann útskrifaðist sem stúdent frá Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi. Eins og hjá samstúdentum hans var nú komið að því að uppskera laun áralangrar vinnu að settu marki. En leiðin var torsóttari en fyrir flesta hjá Ásberg, eins og hann er gjarnan kallaður, þar sem hann er blindur, hreyfihamlaður og með skerta heyrn.

Veikindi Ásbergs hófust veturinn 1989-90, þegar hann var 14 ára gamall, en þau hófust þannig að hann fór að finna fyrir höfuðverk, augntruflunum og jafnvægisleysi. "Ég lenti í því að detta niður þar sem ég stóð eða ganga á hluti og ég stóð mig illa á skyndiprófum í fögum sem ég hafði alltaf staðið mig vel í. Síðan veiktist ég mjög skyndilega 6. mars 1990 er ég missti sjónina á hægra auga og var sendur í rannsókn daginn eftir, en þá var ég farinn að missa sjónina á hinu auganu.

Daginn eftir, 8. mars, var ég síðan skorinn upp á höfði þar sem fannst mjög illkynjað stórt krabbameinsæxli á heilastofninum við litla heila. Læknarnir náðu 99,9% af æxlinu, sem auk þess að vera hættulegt öndunarstöðvum heilans, þrýsti óþyrmilega á sjóntaugarnar og þess vegna missti ég sjónina."

Lamaður, blindur og mállaus eftir aðgerðina

Næstu dagar og vikur reyndust Ásberg og fjölskyldu hans mjög erfiðir tímar, en tveimur dögum eftir aðgerðina missti hann allan mátt og talgetu auk þess sem hann hafði þegar misst sjónina. Ásberg lá á gjörgæslu í þrjár vikur og aðrar þrjár liðu áður en hann fór aftur að geta tjáð sig, en á þeim tíma var ekki vitað hvort hann myndi öðlast máttinn, málið eða sjónina aftur auk þess sem óttast var um andlega heilsu hans.

Við tók lega á Landakoti fram á sumar en þá hafði hann aftur öðlast einhverja hreyfigetu, reyndar mjög skerta þar sem jafnvægisleysi einkennir allar hreyfingar, málið var bjagað en sjóninni varð ekki bjargað. Nú tók við tími geislameðferðar og lyfjagjafar en vegna hennar skertist heyrn Ásbergs að einhverju leyti.

Allan næsta vetur var fjölskyldan í stöðugum ferðum með drenginn til Reykjavíkur þar sem skiptist á innlögn til að fá innrennslislyf, sprautumeðferð og töflugjöf. Auk þess var ekið með hann á Selfoss þrisvar í viku til sjúkraþjálfara, þannig að það urðu óteljandi ferðirnar milli Lambhaga, Selfoss og Reykjavíkur þennan veturinn, en þess má geta að um 100 kílómetrar eru frá Lambhaga til höfuðborgarinnar.

Uppbygging hefst

Um vorið 1991 var eiginlegri krabbameinsmeðferð lokið og líkamleg og andleg uppbygging næsta stórverkefni. Ásberg fermdist um haustið en hann missti af fermingunni sinni árið áður auk þess sem hann datt alveg út úr grunnskólanum sökum veikinda sinna, en hann hafði sótt skóla á Hellu. Þá tók við dvöl á Reykjalundi og áframhaldandi sjúkraþjálfun að því loknu hjá Gunnari Leifssyni sjúkraþjálfara á Selfossi, sem reyndar þjálfar hann enn í dag.

Á næstu misserum vaknaði hjá Ásberg löngun til að ljúka grunnskólanáminu auk þess sem hann hafði áhuga á frekara námi eins og jafnaldrar hans. Haustið 1993 settist hann á skólabekk í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi, þar sem ráðstafanir höfðu verið gerðar af skólayfirvöldum og menntamálaráðuneyti til þess að taka við honum, en ljóst var að hann þyrfti á sérstökum úrræðum að halda til að gera honum kleift að stunda námið.

Í byrjun fékk hann sérkennslu til að ljúka sínum grunnskólagreinum auk þess sem hann samhliða því hóf fljótlega nám í greinum sinnar brautar, félagsfræði- og sálfræðibraut. Á átta árum hefur hann þannig lokið við 2-3 ára grunnskólanám auk hinna hefðbundnu fjögurra ára sem stúdentsprófið venjulega tekur, en það verður að teljast einstaklega vel að verki staðið í hans stöðu.

Ásberg leynir ekki ánægju sinni með fjölbrautaskólann, en allir sem komið hafa að hans námi hafa reynst honum einstaklega vel og telur hann sig hafa verið sérlega heppinn með kennara.

"Ég hafði frábæran umsjónarkennara, Hörð Ásgeirsson, sem kenndi mér dönsku, stærðfræði og sérkennslu í í ýmsum greinum. Námið fór þannig fram að ég mætti í tíma, hlustaði og tók þátt í náminu eins og aðrir nemendur. Hörður útbjó efni fyrir mig á snældum, sem ég hlustaði á heima og gerði verkefni uppúr með aðstoð Hafdísar systur minnar, en hún var mér ómetanleg stoð og stytta við heimanámið. Ég passaði vel uppá að læra alltaf heima og tók þetta eins og aðrir, bara skref fyrir skref."

Aðspurður kveðst Ásberg ekki stefna á frekara nám í bráð, en "kannski kemur upp sú staða að ég get farið í háskóla en ég hef ekki gert upp við mig hvað myndi henta mér að læra, e.t.v. stjórnmálafræði eða mannfræði, það verður bara að koma í ljós hvar ég enda".

Íþróttir og pólitík

Ásberg hefur brennandi áhuga á íþróttum og þá sérstaklega fótbolta. Hann "horfir" á alla leiki í sjónvarpinu, en hans lið eru Liverpool og ÍBV.

"Ég er búinn að halda með þessum liðum síðan ég var lítill strákur og geri enn. Svo finnst mér gaman að fylgjast með formúlunni en minn maður er Häkkinen. Ég nýt þess að ferðast og hef farið nokkrum sinnum til útlanda með Blindrafélaginu og ætla einmitt með þeim til Finnlands í sumar. Svo fylgist ég með umræðum á Alþingi í sjónvarpinu, hlusta á hljóðbækur og rökræði við vini mína um pólitík. Í átta ár hefur Jón Thorarensen skólabílstjóri á Hellu ekið mér í skólann á Selfossi og við erum búnir að kryfja þetta allt til mergjar, við rífumst mikið því hann er argasta íhald en ég á samleið með Framsókn. Það geta ekki allir alltaf verið sammála, en ég er búinn að reyna mitt til að snúa honum."

Ásberg hefur svo sannarlega komist yfir margar hindranir með jákvæðu hugarfari sínu, segist vera alveg laus við bölsýni og þunglyndi en finnst slæmt að geta ekki unnið vegna fötlunar sinnar. Það er ekki hægt annað en að vera hugfanginn þegar slík hetja verður á vegi manns og margir alheilbrigðir mættu taka hans jákvæðu lífssýn sér til fyrirmyndar.