Mats Wisk, framkvæmdastjóri markaðsmála hjá Nokia, segir að skýr markmið og sérstaða á markaði sé einn helsti grunnurinn að velgengni fyrirtækisins.
Mats Wisk, framkvæmdastjóri markaðsmála hjá Nokia, segir að skýr markmið og sérstaða á markaði sé einn helsti grunnurinn að velgengni fyrirtækisins.
SIGURÐUR Geirdal, bæjarstjóri í Kópavogi, fagnar framkomnum hugmyndum um uppbyggingu þekkingarseturs í landi Lundar við Nýbýlaveg í Kópavogi.

SIGURÐUR Geirdal, bæjarstjóri í Kópavogi, fagnar framkomnum hugmyndum um uppbyggingu þekkingarseturs í landi Lundar við Nýbýlaveg í Kópavogi. Hann sagði í setningarræðu á ráðstefnu, sem haldin var í gær um virkjun þekkingar sem upsprettu verðmæta, að hann mundi eftir fremsta megni greiða götu hugmynda sem Þróunarfélagið Lundur hefur unnið að útfærslu á. Hugmyndirnar gera ráð fyrir uppbyggingu ríflega 50 þúsund fermetra atvinnu- og íbúðarhúsnæðis fyrir þekkingariðnaðinn. Sigurður sagðist vona að Þróunarfélaginu mundi takast að koma hugmyndunum í höfn og að mannvirkin risu á umræddu svæði í fullri sátt við umhverfið.

Mats Wisk, framkvæmdastjóri markaðsmála hjá finnska stórfyrirtækinu Nokia, flutti erindi á ráðstefnunni þar sem hann sagði frá helstu áföngum í 130 ára sögu fyrirtækisins og miklum vexti þess á síðastliðnum árum. Fram kom í máli hans að velgengni Nokia í harðri samkeppni á alþjóðamarkaði stafaði einna helst af skýrum markmiðum og því að fyrirtækinu hefði tekist það ætlunarverk að skapa sér sérstöðu á fjarskiptamarkaði.

Per Morten Vigtel, stjórnarformaður IT Fornebu og formaður Samtaka norskra fjárfesta, sagði á ráðstefnunni frá uppbyggingu aðstöðu fyrir þekkingariðnaðinn á Fornebu flugvelli í Ósló, sem lagður hefur verið af. Hann sagði að uppbyggingin væri stór í sniðum til að hún vekti athygli erlendis, því þekkingarsetur væru að rísa víða um heim og samkeppnin í þeim efnum væri mikil.

Skýr markmið og sérstakar starfsaðferðir hjá Nokia

Matt Wisk sagði að Nokia, sem áður hefði helst verið þekkt fyrir framleiðslu á stígvélum, hefði starfað á ýmsum sviðum er líða tók á tuttugustu öldina, eftir samruna við fjölmörg fyrirtæki. Um miðjan síðasta áratug hefði hins vegar verið tekin ákvörðun um það hjá fyrirtækinu, að það myndi sérhæfa sig á sviði fjarskiptatækni. Eftir það hefði velgengnin byrjað fyrir alvöru. Hann lagði sérstaka áherslu á að skýr markmið og sérstakar starfsaðferðir fyrirtækisins hefðu mikið að segja um velgengni þess. Áhersla væri til að mynda lögð á að koma vel fram jafnt við starfsfólk sem viðskiptavini og að læra af mistökunum, sem hann sagði töluvert um í þeirri starfsemi sem fyrirtækið fæst við.

20 þúsund starfsmenn í þekkingarsetri á Fornebu

Í Skandinavíu er hraðasta uppbygging í þekkingariðnaðinum í heiminum í dag að sögn Per Morten Vigtel. Hann sagði að stefnt væri að samvinnu Norðurlandanna með uppbyggingu þekkingarsetursins á Fornebu flugvelli. Fjárfestar hafi tekið höndum saman um 60 milljarða króna fjárfestingu, sem ætlað sé að tryggja alþjóðlega samkeppnishæfni norsks hugbúnaðar- og þekkingariðnaðar. Gert sé ráð fyrir að þegar uppbyggingu svæðisins verði að fullu lokið á árinu 2008 muni um 20 þúsund manns starfa á svæðinu. Markmiðið sé að stuðla að samvinnu milli rannsókna, menntunar og viðskipta. Hann sagði að norska símafélagið Telenor væri stærsti einstaki fjárfestirinn í IT Fornebu. Aðrir fjárfestar væru einstaklingar, fyrirtæki, rannsóknar- og menntastofnanir, samtök úr atvinnulífinu og norska ríkið.

Þörf á meira samstarfi íslenskra fyrirtækja

Frosti Bergsson, stjórnarformaður Opinna kerfa hf., sagði á ráðstefnunni í gær að til að ná árangri í alþjóðlegri samkeppni í þekkingariðnaðinum þyrfti samstarf milli íslenskra fyrirtækja að vera mun meira en nú er, meðal annars vegar þess hvað markaðssetning erlendis væri kostnaðarsöm. Þá sagði hann að hlutverkaskipting milli ríkisins og einkaaðila þyrfti að vera skýrari. Einkaaðilar ættu að annast fjármögnun, þróun og sölu en hlutverk ríkisins ætti að vera að skapa rétt umhverfi. Í þeim efnum nefndi hann sérstaklega samkeppnishæft skattaumhverfi og stöðugleika. Besta fjárfestingin í tengslum við þekkingariðnaðinn liggur að mati Frosta í öflugu menntakerfi.