Haraldur Blöndal
Haraldur Blöndal
Reykingar þóttu lummó, hallærislegar, sóðalegar og púkó, segir Haraldur Blöndal. Eftir gildistöku nýju laganna verða þær spennandi á ný.

EKKI verður hjá því komizt að mótmæla þeim sjónarmiðum, er fram komu í grein Jóns Steinars Gunnlaugssonar hrl. og birtust í Mbl. sl. laugardag. Þar hvetur hann menn eindregið til að hætta að reykja filterlausan Camel og fara að reykja Winston light. Þetta er alrangt og undarlegt, að jafnskýrum manni og Jóni Steinari skjótist um svona einfalt atriði. Ég hóf reykingar um svipað leyti og Jón Steinar og hætti þeim 29 ára gamall og hafði allan tímann aðallega reykt venjulegan Camel, upp í tvo pakka á dag. Camel eru afskaplega góðar sígarettur, bragðmiklar og fastar. Til yndisauka átti maður til að að kaupa Gauloises, franskar verkamannasígarettur í bláum pakka, með sterkum reyk, svo að mann svimar nærri af hverju dragi. Þær voru reyktar af mönnum, sem höfðu stúderað í Frakklandi og þótti mjög gáfulegt að reykja þær. Þá mátti notast við Pall-Mall, en þær voru heldur mildari en með mikinn eftirkeim. Þær voru lengri en aðrar almennilegar sígarettur, þ.e. jafnlangar og filtersígarettur. Hins vegar fékk ég alltaf í hálsinn, ef ég reykti Chesterfield, - þær höfðu svipuð áhrif og White Horse viský, sem þurrkar upp á manni hálsinn í stað þess að mýkja hann. Yfirleitt reyktu menn ekki annað en amerískar sígarettur. Indriði Waage reykti De Reske, og Margrét stjúpa mín og Benedikt Sigurjónsson hæstaréttardómari reyktu Hellas. Þetta voru tyrkneskar sígarettur, mildar og með sérkennilegu bragði. Notkun þeirra dó út á Íslandi.

Filtersígarettur þóttu mér vondar, nema Salem, það var oft ágætt að fá myntubragðið saman við reykinn. Mér hefir verið sagt, að filterinn sé hættulegur, og raunar sé einhvers konar hvati fyrir hættuleg aukaefni í sígarettunum, og það sé því minna skaðlegt að reykja úrvalssígarettur eins og Camel frekar en platsígarettur með filter eins og Winston Light. Einn ágætur læknir (Vilmundur landlæknir) sagði mér raunar, að líklega væri það pappírinn í sígarettunum, sem væri hættulegastur.

Ég hætti ekki að reykja vegna (ó)hollustunnar. Ég hætti vegna sóðaskaparins, sem fylgir reykingum. Tóbakslykt er vond til lengdar og hús, sem mettuð eru af tóbaksreyk, eru ill innkomu. Ég hefi ekki reykt sígarettur síðan í janúar 1975, en hefi stundum fengið mér vindil á gamlaárskvöld til að nota til að kveikja í flugeldum. Svo fékk ég mér firnasterkan Havannavindil á reyklausa daginn og reykti hann Þorgrími Þráinssyni og reykinganefndinni til dýrðar. Það ágæta fólk er núna önnum kafið við að gera reykingar álíka spennandi og þær voru, þegar við Jón Steinar byrjuðum að reykja fyrir um það bil 40 árum. Reykingar voru nefnilega á hröðu undanhaldi í þjóðfélaginu vegna þess, að þær þóttu lummó, hallærislegar, sóðalegar og púkó. Eftir gildistöku nýju laganna verða þær spennandi á ný.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður.