Sverrir Hermannsson
Sverrir Hermannsson
Auðvaldinu hentar á hinn bóginn ekki að sameign þjóðarinnar, sjávarauðlindin, sé seld á frjálsum markaði, segir Sverrir Hermannsson. Henni skal úthlutað ókeypis til sægreifa.

ÞAÐ vantar ekki að stjórnvöld reyni að gera hosur sínar grænar fyrir sjómannastéttinni í hátíðaræðum og kalli þá hrafnistumenn í hverju orði og burðarása íslenzks atvinnulífs og efnahags. Á tímum Ólafs Thors vissu sjómenn að slíkt var af heilindum mælt. En það er sem áður er kveðið að Íslands hrafnistumenn muna tímamót tvenn. Nú ganga stjórnvöld undir lénsherrum sem líta á sjómenn sem ánauðuga þræla sem ræna megi þeim mannréttindum að vera frjálsir að samningum um sölu vinnu sinnar.

Á annan tug ára hefir herraþjóðin í LÍÚ getað gengið að því sem vísu að stjórnvöld handjárnuðu sjómenn í kjarabaráttu þeirra. Þess vegna hefir aldrei að þeim hvarflað að setjast í alvöru að samningaborði með sjómönnum.

Síðustu athafnir stjórnvalda í málefnum sjómanna að undirlagi LÍÚ munu vafalaust þykja hinar skrautlegustu þegar fram líða stundir.

Undir því yfirskyni að bjarga á land verðlitlum loðnukvikindum voru lög sett á verkfall sjómanna. Með þeirri aðferð sérstaklega sáu LÍÚ-menn fram á að illt blóð hlypi í forystumenn sjómanna. Þeir yrðu örðugri viðurskiptis og þess vegna auðveldara að kenna þeim um að ekki semdist.

Allt gekk það eftir enda refarnir til þess skornir.

Samt sem áður þurfti að bregða á fleiri ráð. Fyrir því fékk formaður Framsóknarflokksins handbendi sitt í stétt vélstjóra til að rjúfa samstöðu sjómanna.

Eftir það var gatan greið. Borið var fram frumvarp á Alþingi sem bannaði frekari verkfallsaðgerðir sjómanna sem í deilu áttu og einnig þeirra sem utan við stóðu! Minna mátti ekki gagn gera.

"Gerðardómur" skyldi skipaður af þjónustustofnun ríkisstjórnar, Hæstarétti, og átti sá "gerðardómur" að sjá um að ljósrita svikasamning maskinista Halldórs Ásgrímssonar og gera hann síðan að samningi allra sjómanna.

Að kalla þjónustustofnun sína til var engin tilviljun hjá ríkisstjórn. LÍÚ krafðist þess að þeir og stjórnarflokkarnir réðu einir í fjölritunarnefndinni. Til þess treysti ríkisstjórnin sér ekki beint og ákvað þess vegna að fá á skipanina stimpil hins handstýrða Hæstaréttar.

Nú liggur niðurstaðan fyrir: LÍÚ fékk framgengt kröfu sinni um að formaður "gerðardómsins" skyldi vera þeirra maður, m.a.s. húskarl þeirra úr lögfræðingastétt. Annar er kjarnamaður úr Framsóknarflokknum og sá þriðji æðsti maður Hagfræðistofnunar Háskólans sem sér um að afgreiða pantanir ríkisstjórnar um álit í efnahagsmálum.

Auðvaldið sér um sína.

En um hvað skyldi kjaradeila sjómanna einkum snúast?

Um þá ósvinnu sjómanna að krefjast þess að afli seldist hæsta verði á markaði og þeir fái laun sín reiknuð af því í stað þess að sægreifarnir selji sjálfum sér aflann á verði sem þeir sjálfir ákveða. Getur munurinn á því verði og markaðsverði numið allt að 80% - áttatíu af hundraði!

Forysta Sjálfstæðisflokksins er eindregið fylgjandi frjálsum markaði - þegar auðvaldinu hentar.

Auðvaldinu hentar á hinn bóginn ekki að sameign þjóðarinnar, sjávarauðlindin, sé seld á frjálsum markaði. Henni skal úthlutað ókeypis til sægreifa. Sama á við um aflaföngin. Þau verðleggur lénsherrann en greiðir hrafnistumönnunum að geðþótta sínum.

Hver var að tala um lýðræði á Íslandi?

Höfundur er formaður Frjálslynda flokksins.