Sharon Stone fær ekki að sveifla ísnálinni frægu.
Sharon Stone fær ekki að sveifla ísnálinni frægu.
MGM-kvikmyndaverið hefur nú ákveðið að hætta við gerð fyrirhugaðrar framhaldsmyndar af kvikmyndinni Basic Instinct .

MGM-kvikmyndaverið hefur nú ákveðið að hætta við gerð fyrirhugaðrar framhaldsmyndar af kvikmyndinni Basic Instinct. Leikkonan Sharon Stone, sem búin var að samþykkja að bregða sér aftur í líki háskakvendisins Catherine Tramell, hefur í kjölfarið höfðað mál gegn framleiðendunum. Hún sakar þá um að svíkja samning og fer fram á að greidd verði þau laun sem henni höfðu verið lofuð, einn og hálfur milljarður íslenskra króna.

Ákvörðun aðstandenda myndarinnar var kynnt á blaðamannafundi í gær en Alex Yemenidjian, stjórnarformaður MGM, vildi ekki gefa upp ástæður hennar.

Sama dag og ákvörðunin var kynnt lagði Stone fram kæruna, sem byggir á munnlegu samkomulagi sem hún kveðst hafa gert við framleiðendur myndarinnar, þá Andy Vanja og Mario Kassar, um að hún fengi greidda áðurnefna upphæð fyrir að taka að sér aðalhlutverk myndarinnar, óháð því hvort af gerð hennar yrði eður ei.

Framleiðendurnir vilja hins vegar ekkert kannast við að hafa gert samning við Stone.