Gunnar Hansson leikur Blíðfinn í fyrirhugaðri sýningu en hér er hann í hópi unglinga sem kynntu sér starfið í Borgarleikhúsinu í gær.
Gunnar Hansson leikur Blíðfinn í fyrirhugaðri sýningu en hér er hann í hópi unglinga sem kynntu sér starfið í Borgarleikhúsinu í gær.
BORGARLEIKHÚSIÐ hefur hafið æfingar á barnaleikritinu Blíðfinni, sem byggt er á bókum Þorvalds Þorsteinssonar um samnefnda persónu, og er frumsýning áætluð í lok október.

BORGARLEIKHÚSIÐ hefur hafið æfingar á barnaleikritinu Blíðfinni, sem byggt er á bókum Þorvalds Þorsteinssonar um samnefnda persónu, og er frumsýning áætluð í lok október. Leikstjóri er Harpa Arnardóttir en hún skrifar einnig handritið ásamt Þorvaldi Þorsteinssyni.

Sagan segir frá Blíðfinni, ungum vængjuðum, blíðlyndum dreng sem misst hefur foreldra sína yfir í heimkynni Orkunnar og býr ásamt nokkrum öðrum verum í litlum garði. Utan garðsins eru ókönnuð lönd og hættuslóðir og þangað hættir hann sér ekki. Hann kynnist dag einn barninu og tekst með þeim mikil vinátta.

Sagan um Blíðfinn skiptist í tvennt: fyrra bindi, Ég heiti Blíðfinnur en þú mátt kalla mig Bóbó og síðara bindið, Ert þú Blíðfinnur, ég er með mikilvæg skilaboð.

Í hlutverki Blíðfinns er Gunnar Hansson en aðrir leikarar eru Ásta Sighvats Ólafsdóttir, Árni Pétur Guðjónsson, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Erling Jóhannesson, Jón Hjartarson og Katla Margrét Þorgeirsdóttir.

Hilmar Örn Hilmarsson semur tónlist, Snorri Freyr Hilmarsson hannar leikmynd og búninga og Kári Gíslason sér um lýsingu.