Myndlistarmaðurinn Harpa Árnadóttir, umsjónarmaður sýningarinnar.
Myndlistarmaðurinn Harpa Árnadóttir, umsjónarmaður sýningarinnar.
SAMSÝNING átta íslenskra myndlistarmanna undir titlinum "Drawing Iceland", hefst á morgun, laugardag, í Gautaborg.

SAMSÝNING átta íslenskra myndlistarmanna undir titlinum "Drawing Iceland", hefst á morgun, laugardag, í Gautaborg. Sýningin er hluti af alþjóðlega tvíæringnum í Gautaborg, en sýningarstaður samsýningarinnar er Gallerí 54 við Erik Dahlbergsgötuna miðsvæðis í borginni.

Myndlistarkonan Harpa Árnadóttir, sem býr og starfar í Gautaborg, er bæði þátttakandi og umsjónarmaður sýningarinnar. Hugmynd hennar var að sýna teikningu í víðri merkingu orðsins. "Teikningin hefur ekkert alltaf verið í hávegum höfð," segir Harpa, sem kveðst hafa leitað til listamanna sem hafa þanið hugtakið teikning til hins ítrasta í verkum sínum. Og það er íslenskt myndlistarfólk sem hún hefur fengið til liðs við sig, listamenn sem nálgast teikninguna á mjög ólíkan hátt og eiga það sameiginlegt að hafa varpað nýstárlegu ljósi á hefðbundinn miðil.

Einn þeirra er Kristján Guðmundsson sem snemma á áttunda áratugnum vakti athygli með "Yfirhljóðhraða teikningum" og sem allt frá árinu1979 hefur haft sjálft efni teikningarinnar að viðfangsefni. Hann vann þrívíð verk úr grafíti og pappír sem hann skilgreindi sem teikningar og hugleiðingar hans gátu verið svohljóðandi: "Algjör tæming teikningarinnar leiddi til bið- eða hvíldarstöðu efnisins. Teikningin er orðin efnisbanki, liggjandi hvoru megin sem vera skal við núllpunktinn. Gerð og ógerð í senn."

Grannar línur

Ingólfur Arnarsson hefur farið aðrar leiðir allt frá því að hann kom inn í sögu myndlistarinnar, með sérkennilegum teikningum, er hann birti í lítilli bók árið 1980, meðan hann var í námi í Jan van Eyck Akademie í Maastricht. "Þær eru svo fíngerðar og línurnar svo grannar, að slíkt hefur ekki sést nema í svokölluðum "ósýnilegum teikningum" eftir Walter de Maria," skrifar Marianne Stocebrand í sýningarskrá frá 1996. Teikningar Hörpu Árnadóttur vöktu athygli þegar hún var enn við nám í Listaháskólanum Valand (1994-96), en spurningin "hvað er teikning?" er henni hugleikin.

Listafólk samsýningarinnar Drawing Iceland eru auk Kristjáns, Ingólfs og Hörpu, þau Ingileif Thorlacius, Finnbogi Pétursson, Hreinn Friðfinnsson, Sigurður Guðmundsson og Ragna Róbertsdóttir. Að sögn umsjónarmanns eru það einkum verk þeirra Rögnu og Finnboga sem ljá sýningunni nafn. Bæði sækja efni heim í landið sjálft, Ragna sem teiknar með vikri beint á vegginn og um leið landið með landinu sjálfu og Finnbogi sem birtir sínar hljóðu hljóðmyndir, með tölvuunnum bylgjum, sóttum í hljóðandi sprungur Vatnajökuls.

Sýningin verður opin fjóra daga vikunnar í sumar, til 26. ágúst og er eins og áður segir hluti af tvíæringi Gautaborgar. Sýningarsvæði tvíæringsins eru ólíkir staðir í hjarta borgarinnar, svo sem meðfram Kungsportsavenyn og einnig er Sporvagn - leið númer 9 - kynntur sem sýningarstaður. Yfirlýst markmið er að varpa ljósi á nútímalist, þannig að hún nái til breiðari hóps njótenda og áætlunin er að hinn alþjóðlegi listviðburður nái hámarki annað hvert sumar. Bæði evrópskt og amerískt listafólk sem hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu verður kynnt á tvíæringnum í Gautaborg í ár.

Átta leyndarmál

Ekkert land á þó fleiri fulltrúa á tvíæringnum en Ísland og þrír þátttakendanna í samsýningunni Drawing Iceland sýna einnig útilistaverk: Ragna, sem vinnur verk sitt á jörðina úr rauðum vikri; Sigurður, sem sýnir verkið "Secrets" og mun lofa átta leyndarmálum að koma í ljós á ólíkum stöðum og samkvæmt fréttatilkynningu er þess vænst að Hreinn Friðfinnsson komi þekktum styttum borgarinnar á flug, þar á meðal styttunni af sænsku skáldkonunni Karin Boye, sem annars stendur kyrr fyrir utan Borgarbókasafnið við Gautatorg með sitt daglega blóm úr hendi óþekkts aðdáenda.

Gautaborg. Morgunblaðið.