ÁÆTLAÐ er að 144 leikskólakennara vanti í ágúst nk. til starfa við Leikskóla Reykjavíkur. Þar af þarf að ráða í 30 stöður deildarstjóra. Þetta kom fram á borgarstjórnarfundi í gær.

ÁÆTLAÐ er að 144 leikskólakennara vanti í ágúst nk. til starfa við Leikskóla Reykjavíkur. Þar af þarf að ráða í 30 stöður deildarstjóra. Þetta kom fram á borgarstjórnarfundi í gær.

Guðlaugur Þór Þórðarson, Sjálfstæðisflokki, sagði að biðlistar eftir leikskólaplássi hefðu lengst jafnt og þétt og að alls hefðu verið 2.893 börn á biðlista í janúar sl. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarstjóri, sagði að sú þensla sem hefði ríkt í efnahagsmálum hérlendis hefði komið illa við starfsemina þar sem starfsfólk hefði sótt í betur launuð störf. Ingibjörg sagði að borgaryfirvöld hefðu lagt kapp á að mæta vaxandi þörf og eftirspurn. Ör uppbygging kallaði á aukinn fjölda starfsfólks og bundnar væru vonir við að nýr kjarasamningur leikskólakennara og efling innra starfs leikskólanna mundi skila sér í auknum áhuga á starfinu.

Foreldrar barna í Austurborg hafa sent borgarstjórn áskorun um bættan aðbúnað barna og starfsmanna í leikskólum borgarinnar. Ingibjörg sagði að jafnræði hefði verið haft að leiðarljósi við að tryggja sem flestum börnum pláss og sagðist undrast þegar áskoranir bærust um að draga úr innritun á leikskólana. Hún sagðist telja það bera vott um sérhyggju að vilja loka dyrunum á þá foreldra sem eru að banka upp á og hafa ekki leikskólapláss fyrir börn sín.