Petri Sakari
Petri Sakari
Flutt voru 6. sinfónían eftir Beethoven og Vorblót eftir Stravinskíj Stjórnandi Petri Sakari. Fimmtudagurinn 7. júní, 2001.

LOKATÓNLEIKAR Sinfóníuhljómsveitar Íslands voru glæsilegir, enda viðfangsefnin sérlega áhugaverð, snilldarverkið sú sjötta eftir Beethoven og eithvert mesta byltingarverk tónlistarsögunnar, Vorblót eftir Stravinskíj.

Sjötta sinfónían eftir Beethoven er lofgjörð til náttúrunnar og ein af fegurstu sinfóníum snillingsins. Það rýrir ekki gildi verksins að það er að nokkru leyti byggt á króatísku þjóðlagi, eins og t.d. upphafsstefið, sem hjá Króötum og Serbum er þekkt undir nafninu Reigen (H. Möller, Ed. Schott). Sinfónían var fallega flutt, en nokkuð beint áfram, án þess að dvalið væri við hendingaskil, sem hefði mátt gera í jaðarköflunum og öðrum þættinum, Við lækinn, sem einnig var ívið of hraður. Sveitaballið, 3. þátturinn og stormkaflinn voru glæsilega leiknir. Eitt og annað í styrkleikajafnvægi hljóðfæra mætti tiltaka, einkum í lokakaflanum frá takti 101 að 140 í strengjunum, sem fyrst hljómar sem mótstef við klarinettstefið í upphafi kaflans en verður smám saman tilbrigði yfir aðalstefið, sem nær því týndist í hljóman mótraddanna. Hvað sem þessu líður var flutningur sinfóníunnar skýrlega mótaður.

Lokaverk tónleikanna var Vorblót eftir Stravinskíj, eitt af stórverkum tuttugusu aldarinnar og var flutningur þessa verks glæsilegur og stóð hljómsveitin sig hið besta í erfiðum hrynskiptingum, sem sérstaklega eru erfið í fórnardansinum undir lokin. Þrátt fyrir glæsilegan leik vantaði að dvelja ögn við einstaka galdrakafla í blæmótun.

Það voru margir er áttu glæsilega leiknar tónlínur, t.d. hornin, klarinettin, fagottin, óbóin, enska hornið og flauturnar og ekki má gleyma slagverkinu, sem lék af miklum krafti, svo að stundum stóð ógn af. Vorblót er eitthvert magnaðasta verk tuttugustu aldarinnar og þó það sé orðið 87 ára gamalt, er það nýtískulegra og frumlegra en margt það sem nú er verið að gera. Í bland við alls konar tilraunir í blæbrigðum og ómstreitum má heyra skemmtilegar tónhugmyndir og grípandi stef, þannig að í þessu verki er allt.

Petri Sakari náði að magna upp óhemju sterkan og áhrifamikinn leik hjá hljómsveitinni og var hann auðsjánlega í essinu sínu, þar sem taktskiptin hjá Stravinskíj voru hvað margbrotnust og var samspil hans við hljómsveitina stórkostlegt. Þessi síðasti konsert Sinfóníuhljómsveitar Íslands á starfsárinu 2000-2001, var einn allsherjar hvellur, einstaklega glæsilegur konsert, enda fögnuðu bæði hljómsveit og áheyrendur Petri Sakari af miklum innileik. Hann á þó nokkuð í Sinfóníuhljómsveit Íslands og verður fyrir það ávallt aufúsugestur hér uppi á Fróni.

Jón Ásgeirsson