Kristín Halldórsdóttir
Kristín Halldórsdóttir
Áhrifasvæði virkjunarframkvæmdanna, segir Kristín Halldórsdóttir, er geysilega víðfeðmt.

FRESTUR til að skila athugasemdum til Skipulagsstofnunar við skýrslu um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar rennur út 15. júní nk. Verður að hvetja sem flesta til að senda inn athugasemdir því málið varðar svo sannarlega framtíð lands og þjóðar.

Feiknarleg óafturkræf áhrif

Skýrslan og fylgigögn hennar leiða skýrt í ljós gríðarlegt umfang fyrirhugaðra framkvæmda og þau feiknarlegu, óafturkræfu áhrif sem þær hefðu á náttúru og umhverfi. Um yrði að ræða meiri umhverfisspjöll, meiri vatnaflutninga, meira jarðrask og meiri breytingar á landslagi og náttúrufari en áður hefur verið efnt til. Engu að síður kemst Landsvirkjun að þeirri niðurstöðu "...að umhverfisáhrif virkjunarinnar séu innan viðunandi marka í ljósi þess efnahagslega ávinnings sem væntanleg virkjun mun skila þjóðinni og þeirrar atvinnuþróunar sem sölu orkunnar fylgir." Engin haldbær rök eru færð fyrir þeirri niðurstöðu Landsvirkjunar, aðeins fullyrðingar.

Í samantekt um áhrif virkjunarinnar eru taldir upp þeir fjölmörgu þættir í náttúrunni sem breytast mundu eða glatast með tilkomu hennar og er það hrollvekjandi lestur. Sem dæmi má nefna skerðingu ósnortinna víðerna, breytingar á landslagi vegna Hálslóns, sem mun kaffæra um 32 ferkílómetra af grónu landi, stórmerkar jarðfræðiminjar, verðmætar vistgerðir og búsvæði plantna og dýra, umtalsverðar breytingar á rennsli Jökulsár í Dal og Jökulsár í Fljótsdal og á ásýnd Hafrahvammagljúfra, röskun á beitar- og burðarsvæðum hreindýra, aukið sandfok inn á Vesturöræfi, fjórðungs skerðingu friðlandsins í Kringilsárrana og breytingar á fjölda fossa sem sumir munu hverfa alveg.

Skýrslan er einn samfelldur áfellisdómur um þessi áform og undirrituð er gjörsamlega ósammála þeirri niðurstöðu Landsvirkjunar að þessi hrikalega eyðilegging og spjöll í náttúru landsins séu "innan viðunandi marka".

Mögnuðustu gljúfrum spillt

Ætlun Landsvirkjunar er að byggja 190 metra háa stíflu við Fremri-Kárahnjúk, sem yrði ein stærsta stífla í Evrópu, og auk þess hliðarstíflur beggja vegna, þ.e Desjarárstíflu, sem yrði um 60 metra há, og Sauðárdalsstíflu, sem yrði um 25 metra há. Þannig yrði til hið svonefnda Hálslón sem yrði allt að 57 ferkílómetrar að flatarmáli. Þessar framkvæmdir hefðu gríðarleg áhrif á náttúru og umhverfi. Þær mundu skerða ósnortin víðerni og rýra verndargildi þeirra og þær mundu spilla notagildi svæðisins með tilliti til gróðurfars og dýralífs. Undir vatn færi landsvæði sem hefur mikið vísindalegt gildi og er gróðurfarslega og ekki síður jarðfræðilega mikilvægt.

Þessar aðgerðir mundu tæma Hafrahvammagljúfrin að mestu af vatni neðan lónsins og spilla varanlega mögnuðustu gljúfrum landsins. Þetta yrði algjörlega dæmalaus framkvæmd sem vafasamt er að yrði liðin nokkurs staðar meðal vestrænna þjóða.

Sérstaða Íslands á heimsvísu felst í náttúru landsins og ekki síst í ósnortnum víðernum þess, þeim stærstu í Vestur-Evrópu. Þar er fólginn sá fjársjóður sem varðveita ber og nýta til rannsókna og fræðslu, til ferðamennsku á forsendum sjálfbærrar þróunar og sem mikilvægan þátt í ímynd lands og þjóðar. Höfundar skýrslunnar telja að mannvirki Kárahnjúkavirkjunar mundu þrengja svo að ósnortnum víðernum að þau skerðist um 925 ferkílómetra. Sú staðreynd ein og sér er nægileg röksemd fyrir því að hafna þessum áformum.

75 metra vatnsborðssveifla

Vatnsborð lónsins kæmi til með að sveiflast meira en þekkist í öðrum miðlunarlónum hér á landi eða "...um allt að 75 metra miðað við ýtrustu miðlunarþörf". Af þessu leiðir að stór hluti af flatarmáli lónsins yrði á þurru fram eftir sumri. Þetta er skelfileg tilhugsun og gagnrýni vert hvernig reynt er að gera lítið úr áhrifum þessa, sem mundi rjúfa og skemma gróðurþekjuna umhverfis lónið og hafa víðtæk áhrif á allt umhverfið.

Þá er í skýrslunni farið lauslega yfir sambúð Hálslóns og Brúarjökuls, en af sérfræðiskýrslu um það efni er ljóst að stórfengleg jakahlaup gætu valdið miklum usla. Þar eru færðar líkur fyrir því að 10-20 metra breiðir ísjakar og allt að 1000 rúmmetrar að stærð muni brotna úr jöklinum og mynda flóðbylgjur þegar þeir hrynja í lónið. Slíkar hamfarir auka enn á eyðileggingu lands umhverfis lónið.

Að öllu samanlögðu verður augljóslega um gríðarlega landeyðingu að ræða sem býður heim hættu á stórauknu sand- og moldroki og sífellt meiri jarðvegseyðingu, eins og t.d. má lesa um í sérfræðiskýrslu RALA um jarðveg og jarðvegsrof.

Boðaðar mótvægisaðgerðir minna helst á sóskinsburð Bakkabræðra.

Þöggun fjölda fossa

"Því er nú mjög á lofti haldið, og vissulega með veigamiklum rökum, að í fossum landsins búi nokkuð af framtíð okkar þjóðar, er byggist á þeim verðmætum, sem mæld eru í kílówattstundum. En þar við liggur einnig brot af framtíðarhamingju þjóðarinnar, að hún gleymi því ekki, að í fossum landsins búa einnig verðmæti, sem ekki verða metin til fjár, en mælast í unaðsstundum." (Sigurður Þórarinsson, Fossar á Íslandi, Fjölrit Náttúruverndarráðs, 1978.)

Aðeins þaulkunnugir geta með vissu sagt fyrir um áhrif fyrirhugaðrar Kárahnjúkavirkjunar á fossa á áhrifasvæði hennar, en víst er að þeir skipta a.m.k. tugum. Nokkrir fossar mundu hverfa, þar á meðal háir og sérlega glæsilegir fossar eins og Kringilsárfoss, stundum nefndur Töfrafoss, sem hyrfi í Hálslón ef það yrði myndað. Sama er að segja um Eyjabakkafoss, sem hyrfi að mestu við myndun Ufsarlóns.

Fjölmargir aðrir fossar yrðu vart svipur hjá sjón þegar verulega hefur verið dregið úr rennsli þeirra. Nokkrir þeirra eru nefndir í matsskýrslunni og m.a. bent á "...að á um 20 km kafla frá Eyjabökkum niður að Kleif í Fljótsdal eru um 15 fossar allt að 30 metra háir og bera einungis fáir þessara fossa nafn." Sérstaklega er bent á að þessir fossar séu lítt þekktir og læðist að manni sá grunur að skýrsluhöfundum þyki það til marks um lágt verndargildi, sem er auðvitað algjörlega fráleitt.

Aldrei fyrr hafa verið uppi önnur eins áform um eyðileggingu fossa á Íslandi og yrði það ekki til vegsauka íslenskri þjóð ef þau yrðu að veruleika.

Óafturkræf inngrip

Áhrifasvæði virkjunarframkvæmdanna er geysilega víðfemt. Það nær frá Brúarjökli allt til sjávar við Héraðsflóa og tekur til a.m.k. 16 vatnsfalla auk minni árspræna og vatna. Aldrei fyrr hafa komist svo langt hugmyndir um svo umfangsmikla vatnaflutninga né svo mikil heildarinngrip í þróun náttúrufars á svo stóru svæði.

Margt fleira en hér hefur verið tíundað verðskuldar sérstaka umfjöllun. Má þar sérstaklega nefna áhrif á ferðaþjónustu og útivist, áhrif á jarðfræðiminjar, á búsvæði jurta og dýra og tengsl við alþjóðasamninga um náttúruvernd.

Það er svo enn einn þáttur þessa máls að raforkan sem þessari risaframkvæmd er ætlað að skila dygði ekki til að knýja fyrirhugað álver á Reyðarfirði með allt að 420 þús. tn. afkastagetu á ári. Þar yrðu að koma til fleiri virkjanir, og er horft til bæði Kröflu og Bjarnarflags í því skyni með tilheyrandi möstrum og línum og enn frekari umhverfisspjöllum.

Allt er þetta af slíkri stærðargráðu að mörgum reynist erfitt að átta sig á umfanginu. Niðurstaðan hlýtur þó að vera sú að slík stórfelld óafturkræf inngrip í þróun náttúrufars samkvæmt eigin lögmálum eru óviðunandi með öllu.

Það yrði náttúru landsins til óbætanlegs skaða og þjóðinni til ævarandi vansæmdar ef af þeim yrði.

Höfundur er fv. alþingiskona.