[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skynsamlegast er að leggja rækt við samstarfið innan NATO með virkri þátttöku í friðargæslu á vegum þess í samvinnu við Evrópuríkin samhliða því sem staðinn er vörður um varnarsamstarfið við Bandaríkin. Þetta segir Björn Bjarnason menntamálaráðherra nýlega á vefsíðu sinni.

Vinstri/grænir

Björn sat nýlega öryggismálaráðstefnu í Helsingör í Danmörku og ritaði um þá á vefsíðunni. Þar segir m.a.:

"Þessi stefna ...byggist líklega á svipuðum sjónarmiðum og búa að baki viðhorfi Steingríms J. Sigfússonar, leiðtoga vinstri/grænna, sem hann kynnti á fundi Norðurlandaráðs og Eystrasaltsríkjanna í Ríga í vikunni, um að stækkun NATO væri af hinu illa eins og bandalagið sjálft og þess vegna ættu Eystrasaltsríkin ekkert erindi þangað. Með þessu áréttaði Steingrímur enn og aftur sérstöðu vinstri/grænna í umræðum um evrópsk öryggismál utan þess, sem sagt er á rússneska þinginu, Dúmunni, þegar menn berja sér á brjóst og hallmæla NATO.

Stefna ESB í öryggismálum skiptir miklu í umræðum um þróun þessara mála í okkar heimshluta, sömu sögu er að segja um stækkun NATO og þriðji þátturinn, sem gjarnan er nefndur um þessar mundir, eru bandarískar eldflaugavarnir. Á ráðstefnunni í Danmörku var ekki mikið rætt um slíkar varnir, því að kunnáttumenn draga almennt ekki í efa, að tækniþróunin á þar ekki síður mikinn þátt en vilji stjórnmálamanna til að nýta tæknina sem best til að treysta varnir þjóða sinna, raunar mætti kenna það við ábyrgðarleysi hjá forseta Bandaríkjanna að ýta því frá sér að nýta tæknilega getu til varnar gegn eldflaugum.

Það er mikill misskilningur, ef menn halda, að Bandaríkjastjórn þurfi að sannfæra einhverja um ágæti eldflaugavarnakerfis. Hernaðarlegu rökin gegn slíku kerfi eru, að líklegra sé, að til átaka komi, ef fælingarmáttur gjöreyðingarvopna hverfi vegna þess að einhver geti varist þeim. ABM-samningurinn heimilar takmarkaðar eldflaugavarnir og eru þær aðeins fyrir hendi í Rússlandi. Deilan um varnarkerfi Bandaríkjanna snýst ekki síst um það, hverjum það nýtist til varnar, og í því efni skiptir máli, hvaða leið er valin við gerð kerfisins, hvort miða á við að eyða árásareldflaug þegar henni er skotið á loft eða þegar hún er komin á sporbaug um jörðu. Meiri sátt er um fyrri leiðina en hina síðari, af því að hún tryggir öryggi fleiri. Það er hefðbundið viðfangsefni í samskiptum Bandaríkjanna og Evrópuríkja á vettvangi NATO að ræða um áhrif tækniþróunar á samskipti sín og við nýtingu nýrrar tækni er jafnmikilvægt að sporna gegn klofningi milli Bandaríkjanna og Evrópu og við mótun stefnu ESB í öryggismálum. Ef Bandaríkjamenn velja eldflaugavarnakerfi, sem dugar þeim einum, sætta bandamenn þeirra sig að sjálfsögðu illa við það.

Ýmsum rökum er beitt gegn eldflaugavarnakerfinu. Til dæmis sést því stundum haldið fram, að til lítils sé að ráðast í smíði þess, ef ætlunin er að tryggja algjöra vernd gegn kjarnorkuárás, þar sem unnt sé að koma kjarnorkusprengju á milli landa með öðrum hætti en í eldflaug, til dæmis smygla henni í farangri ferðamanna. Væri þessum rökum almennt beitt við skipulag varnarmála mætti alveg eins hvetja til þess, að til dæmis skriðdrekar hyrfu úr sögunni, af því að hryðjuverkamaður gæti valdið miklu mannfalli með því að fara í sjálfsmorðsferð inn í hóp ungs fólks í biðröð fyrir framan skemmtistað.

Umræður um öryggismál eru jafnlíflegar og áður á þeim vettvangi, þar sem um þau er fjallað, en á hinn bóginn setja þær ekki jafnmikinn svip á almennt pólitískt starf og áður. Fyrir okkur Íslendinga er mikilvægt að gæta hagsmuna okkar. Það gerum við ekki með þeim hætti að stinga hausnum í sandinn og bíða þess sem verða vill.

Skynsamlegast er að leggja rækt við samstarfið innan NATO með virkri þátttöku í friðargæslu á vegum þess í samvinnu við Evrópuríkin samhliða því sem staðinn er vörður um varnarsamstarfið við Bandaríkin og gert átak til að styrkja hlut okkar sjálfra við gæslu eigin öryggis."