OPIN Íslandsmót í handflökun sem og í netaviðgerðum og vírasplæsingum eru á dagskrá Hátíðar hafsins sem hefst í kvöld og lýkur á sunnudag. Opna Íslandsmótið í handflökun fer fram í áttunda sinn en keppnin verður í Hafgarði í Faxaskála og hefst kl. 10.

OPIN Íslandsmót í handflökun sem og í netaviðgerðum og vírasplæsingum eru á dagskrá Hátíðar hafsins sem hefst í kvöld og lýkur á sunnudag.

Opna Íslandsmótið í handflökun fer fram í áttunda sinn en keppnin verður í Hafgarði í Faxaskála og hefst kl. 10.30 í fyrramálið. Starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar, sem er rekin af sjávarútvegsráðuneytinu og Samtökum fiskvinnslustöðva, stendur að mótinu og segir Sigurbjörn Svavarsson, framkvæmdastjóri Hátíðar hafsins, að það sé til að minna á mikilvægi þessarar verkgreinar, en handflökun er mikilvægur þáttur í útflutningsverðmætum sjávarafurða og góðir handflakarar eftirsóttir. 19 manns tóku þátt í keppninni í fyrra og fékk Ámundi S. Tómasson hjá Sætoppi í Reykjavík flest stig fyrir hraða, nýtingu og gæði.

Klukkan 12.30 á morgun hefst svo fyrsta Íslandsmótið í netaviðgerðum og vírasplæsingum á sama stað. Sigurbjörn segir að Hátíð hafsins hafi ákveðið að fara af stað með þessa keppni til að minna á sjóvinnuna og verkþekkinguna en Hampiðjan, Félag járniðnaðarmanna og Ísfell hf. hafi gert það kleift með styrkjum að keppnin yrði að veruleika.

Sjómenn heiðraðir

Að öðru leyti er dagskráin mjög fjölbreytt. Þar má nefna kynningu skóla á menntun og störfum í sjávarútvegi í tjaldborg á Miðbakka kl. 13 á morgun og minningarsýninguna "Við minnumst þeirra", sem hefst í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsinu, kl. 10 í fyrramálið. Hún er til minningar um 1.297 íslenska sjómenn sem skráðir eru í minningarbók Sjómannadagsins frá því að hann var fyrst haldinn 1938 og til sama dags árið 2000. Sýningin er byggð upp af veggspjöldum með áletruðum nöfnum þessara manna í tímaröð. Listamennirnir og feðgarnir Torfi Jónsson og Jóhann Torfason hönnuðu sýninguna og sáu um uppsetningu. Sjómannasamtökin eiga sýninguna.

Guðmundur Hallvarðsson, formaður Sjómannadagsráðs, setur hátíðina kl. 14 á sunnudag en síðan flytja Fjóla Sigurðardóttir, sjómannskona í Grindavík, Guðrún Pétursdóttir, forstöðumaður Sjávarútvegsstofnunar HÍ, og Jón Gunnarsson, formaður Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, ávörp. Að þeim loknum verða fimm sjómenn heiðraðir en hátíðarhöldum lýkur kl. 17 á Miðbakka.