SKIPA- og kvótasölufyrirtæki og einstaklingur voru dæmd í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær til að borga útgerðarfyrirtæki 12 milljónir ásamt vöxtum og dráttarvöxtum frá í fyrravor, auk 700.000 króna í málskostnað.

SKIPA- og kvótasölufyrirtæki og einstaklingur voru dæmd í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær til að borga útgerðarfyrirtæki 12 milljónir ásamt vöxtum og dráttarvöxtum frá í fyrravor, auk 700.000 króna í málskostnað. Peningunum tók skipasalan við er hún seldi bát fyrir útgerðarfélagið og ráðstafaði þeim í eigin þágu sem inngreiðslu á samninga um tvo nýsmíðabáta sem hún hafði í sölu en samningar um kaup á þeim voru þó aldrei gerðir.

Fyrir milligöngu skipasölunnar seldi útgerðarfyrirtækið aðilum á Vestfjörðum 5,99 tonna dekkaðan plastbát. Umsamið kaupverð bátsins var 14,5 milljónir sem greiðast átti með peningum inn á bankareikning skipasölufyrirtækisins. Átti útgerðarfyrirtækið að fá féð afhent þegar öll veðbönd og allar veiðiheimildir bátsins hefðu verið færð af bátnum. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir var sú greiðsla ekki innt af hendi.

Vísað til munnlegra samninga

Skipasalan hélt því fram að tekist hefðu munnlegir kaupsamningar milli útgerðarfélagsins og sín um tvo nýsmíðabáta sem skipasalan hafði til sölu. Hafi hún haft til þess heimild að ráðstafa 12 milljónum króna af andvirði plastbátsins sem fyrstu greiðslum samkvæmt þeim kaupsamningum, 6 milljónum inn á hvorn bát. Fyrirsvarsmaður útgerðarfélagsins undirritaði umsóknir um veiðileyfi til Fiskistofu vegna nýsmíðabátanna en segir að tilgangurinn með umsóknunum hafi einungis verið að kanna hvort veiðileyfi fengist á bátana. Hann hafi ekki haft nein yfirráð yfir bátunum, heldur sótt um þetta í samráði við starfsmann skipasölunnar sem hafi útbúið umræddar umsóknir. Hafi það skipt verulegu máli varðandi hugsanleg kaup á bátum þessum hvort veiðileyfi fengjust á þá, auk þess sem miklu máli hefði skipt hvernig bátarnir reyndust á sjó en aldrei reyndi á það. Hafi því aldrei komið til að af þessum kaupum yrði.

Í niðurstöðum Héraðsdóms Reykjavíkur í gær sagði, að telja verði afar ótrúverðugt og í hæsta máta óeðlilegt, þegar um svo mikil verðmæti sé að ræða sem um geti í meintum kaupsamningum, að vanur sölumaður á skipasölu láti viðgangast að ganga ekki frá formlegum kaupsamningum þar um. Gegn neitun útgerðarfélagsins hvíli sönnunarbyrði þess að bindandi kaupsamningar hafi stofnast á skipasöluna. Hún hafi engin haldbær gögn lagt fram í málinu sem styðji fullyrðingar um munnlega kaupsamninga og gegn eindregnum andmælum útgerðarfyrirtækisins þyki það allsendis ósannað að slíkir samningar hafi komist á og enn síður að skipa- og kvótasölunni hafi verið heimil sú ráðstöfun á söluverði plastbátsins sem raun ber vitni. Þá liggi fyrir að samkvæmt þeim óundirrituðu kaupsamningum sem skipasalan hafi lagt fram til stuðnings kröfum sínum, hefðu umræddar innborganir, 6 milljónir inn á hvorn bát, átt að greiðast við undirritun samninganna, en fyrir lægi að þeir voru aldrei undirritaðir.

Annar bátanna þegar verið seldur öðrum

Þá lægi fyrir í málinu að annar nýsmíðabátanna hefði þegar verið seldur öðrum og hefði skipa- og kvótasalan ekki séð neina ástæðu til að endurgreiða útgerðarfélaginu það fé sem ráðstafað hafði verið sem greiðsla inn á þann bát. Þvert á móti mætti skilja á sölumanni hjá skipasölunni að félaginu hafi borið að fjármagna rekstur skipasölunnar varðaði hina tilteknu nýsmíðabáta.

Segir ennfremur í niðurstöðum dómsins, að skipasalan hafi ekki virt skyldu um góðar viðskiptavenjur sem á henni hvíldi samkvæmt lögum og væri ljóst að fyrirsvarsmenn hennar hefðu í algeru heimildarleysi ráðstafað fjármunum í eigin þágu sem tilheyrðu útgerðarfélaginu og með þeirri saknæmu og ólögmætu háttsemi hefðu þeir valdið útgerðinni tjóni.