Ívar Hrafn Jónsson er einn skjólstæðinga Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins.
Ívar Hrafn Jónsson er einn skjólstæðinga Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins.
Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins er ætlað að vera í fararbroddi varðandi þekkingu á greiningu og ráðgjöf vegna fötlunar. Blikur eru á lofti innan stofnunarinnar, eins og Guðjón Guðmundsson komst að, vegna óánægju sérhæfðra starfsmanna með launakjör sem hafa dregist 15-30% aftur úr launum starfsbræðra á öðrum stofnunum.

GREININGAR- og ráðgjafarstöð ríkisins í Kópavogi stendur frammi fyrir því að óánægja er meðal sérhæfðra starfsmanna stofnunarinnar með launakjör, en þeir telja sig hafa dregist verulega aftur úr sambærilegum stéttum sem starfa hjá sveitarfélögunum og ríkisstyrktum stofnunum. Umtalsvert fé vantar á ári til þess að jafna launamuninn.

Greiningarstöðin hóf starfsemi 1.

janúar 1986. Hún heyrir undir félagsmálaráðuneytið og hlutverk hennar er greining og athugun á fötluðum. Stefán J. Hreiðarsson, barnalæknir og forstöðumaður stofnunarinnar, segir að fyrst og fremst fáist stofnunin við alvarleg frávik í taugaþroska. Stærsti hópurinn er börn með þroskahömlun sem felur í sér almenna greindarskerðingu. Einnig sinnir stofnunin ýmsum hópum hreyfihamlaðra. Öll börn sem uppgötvast með einhverfu koma í Greiningarstöðina þar sem greiningin er staðfest og lagt er á ráðin með úrræði.

Stefán segir að á síðustu árum hafi stofnunin einnig sinnt börnum með höfuðáverka sem hafa til dæmis lent í bílslysum og sitja uppi með hömluleysi, ýmislegar atferlistruflanir og stundum skerta námsgetu.

Kortlagning á getu og vangetu

Greiningin er kortlagning á getu og vangetu barnsins í samanburði við þekkta staðla. Stofnunin sinnir öllu landinu og er í góðri samvinnu við fagfólk úti um allt land. Um 200 börnum er vísað á hverju ári til Greiningarstöðvarinnar, þar af eru um þrír fjórðu ný tilfelli. Fjórðungur hefur áður leitað til Greiningarstöðvarinnar.

Um 30 stöðugildi eru á stofnuninni, og þar starfa barnalæknar, sálfræðingar, talmeinafræðingar, félagsráðgjafar, sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfar, þroskaþjálfar og leikskólasérkennarar. "Við höfum afskipti af yfir 500 börnum á ári og í langflestum tilvikum er um að ræða það alvarleg frávik að vandamál eru til staðar öll uppvaxtarárin," segir Stefán.

Hann segir að ávallt hafi verið fleiri verkefni á stofnuninni en fjármagn hefur verið til að sinna. "Við höfum þó notið stuðnings okkar ráðuneytis og því hefur verið ákveðin aukning í fjárframlögum. En að sama skapi hafa kröfurnar einnig aukist. Við höfum heldur ekki getað fylgt eftir þeirri launaþróun sem hefur verið á sambærilegum stofnunum. Starfsfólk okkar gerði nýlega könnun hjá starfsfélögum annars staðar og hún leiddi í ljós að við stöndum höllum fæti og erum ekki samkeppnisfær um starfsmenn margra fagstétta sem hér þurfa að starfa," segir Stefán.

Þarna munar almennt séð 15-30% í launum og hefur þetta valdið óánægju innan stofnunarinnar. Sem dæmi um þennan vanda má nefna að stofnunin hefur leitað eftir talmeinafræðingi til starfa síðastliðin eitt og hálft til tvö ár án árangurs. "Við höfum ekki getað boðið upp á sambærileg launakjör og sveitarfélögin hér í kringum okkur hafa getað boðið. Við erum að reka okkur á það að þeir sem við höfum viljað ráða geta fengið allt að 50 þúsund kr. hærri mánaðarlaun annars staðar."

Þekkingunni fleygir fram

Fyrir utan launaþróunina segir Stefán að vandi stofnunarinnar sé sá að fylgja eftir auknum kröfum sem gerðar eru til hennar. Þekkingu á þessum sviðum fleygi fram og sem dæmi nefnir Stefán miklar uppgötvanir á sviði einhverfu.

"Menn eru að gera sér grein fyrir því að einhverfa er mun algengari en hún var áður talin. Rík einhverfueinkenni eru nú greind meðal þeirra sem áður voru "eingöngu" taldir þroskaheftir. Nú eru að koma fram vísbendingar í alþjóðlegum rannsóknum, sem Sigríður Lóa Jónsdóttir, sálfræðingur hjá Greiningarstöðinni, tekur þátt í.

Rannsóknin sýnir það að með því að beita réttum aðferðum á forskólaárunum er hægt að bæta horfur barnsins til sjálfstæðis á fullorðinsárunum verulega. Til okkar eru gerðar þær kröfur, bæði hér innanlands og á alþjóðavettvangi, að við tileinkum okkur þessar nýju aðferðir og leiðum þær inn. Foreldrar einhverfra barna fylgjast með þessari þróun og gera kröfur um að fá jafngóða þjónustu hérna eins og verið er að bjóða erlendis," segir Stefán.

Sigríður Lóa hefur tekið að sér að beiðni yfirvalda í Ísrael að koma þangað á tveggja til þriggja mánaða fresti og byggja upp ráðgjafarþjónustu þar.

Sækja um aukið framlag

Sú hætta er fyrir hendi að sérfræðingar hjá stofnuninni hætti þar störfum vegna launakjaranna og segir Stefán það ekki síst eiga við um yngra starfsfólkið sem hefur lært sín fræði, er komið nokkuð áleiðis og litið er til sem forystufólks á þessu sviði í framtíðinni. Stjórnendur Greiningarstöðvarinnar óttast það mjög að á seinnihluta þessa árs missi stofnunin nokkra starfsmenn.

"Það sem þarf að gerast er að veita meira fjármagn til stofnunarinnar svo unnt verði að halda starfseminni áfram eins og hún er í dag og tryggja því framúrskarandi starfsfólki sem við höfum að minnsta kosti sambærileg laun og greidd eru annars staðar. Það er augljóst að Greiningarstöðin á að vera í fararbroddi í þekkingu og fræðslu og það starfsfólk sem leggur það á sig að afla sér meiri þekkingar til að geta leiðbeint öðrum þarf að hafa samkeppnisfær laun," segir Stefán.

Stofnunin hefur sótt um tíu milljónir kr. fyrir árið 2002 til þess eins að bæta launakjör starfsfólksins. Einnig er stofnuninni ætlað að halda uppi þekkingu og fylgjast með því sem gerist erlendis og til að sinna því þarf meira fjármagn til endurmenntunar.

Því hefur Greiningarstöðin farið þess á leit að fjárveiting til hennar verði aukin umtalsvert. Stefán leggur áherslu á að grípa þurfi til aðgerða nú þegar til að koma í veg fyrir atgervisflótta.