ÁRNI M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra, segir að ekki komi á óvart að ákvörðunin um að steinbítur verði utan kvóta á næsta fiskveiðiári sé umdeild, en reglur þurfi að vera um steinbítsveiðar og reynt verði að verja steinbítinn á hrygningartímanum.

ÁRNI M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra, segir að ekki komi á óvart að ákvörðunin um að steinbítur verði utan kvóta á næsta fiskveiðiári sé umdeild, en reglur þurfi að vera um steinbítsveiðar og reynt verði að verja steinbítinn á hrygningartímanum.

Fram kom í samtali við Halldór Árnason, trillukarl á Patreksfirði, í blaðinu í gær að ekki væri um neina nýliðun í steinbít að ræða vegna þess að hugsanlega hefðu togarar hrært svo í hrygningarstöðvunum undanfarin tvö til þrjú ár að klakið hefði alveg misfarist. Því væri svakalegt að vísa öllum flotanum í steinbítinn.

Sjávarútvegsráðherra segir að þessi ummæli um nýliðunina séu í andstöðu við skýrslu Hafrannsóknastofnunar í ár og í fyrra en sjálfsagt og rétt sé að skoða hvort hægt sé að verja steinbítinn á hrygningartímanum. Reynt sé að stýra veiðum á margvíslegan annan hátt en með kvótum og vel geti verið að það eigi við um steinbítinn.

Í viðtalinu við Halldór Árnason kom jafnframt fram að það gengi ekki að hafa frjálsan aðgang að einum stofni en kvóta í öðrum og farið yrði í mál við ráðherra vegna þessa. Árni M. Mathiesen segir að Halldór geti haft mikið til síns máls varðandi kvóta og ekki kvóta en þetta hafi verið þannig að allar tegundir hafi ekki verið í kvóta. Hins vegar væri alveg ljóst að ekki gengi að stýra veiði í einni og sömu tegundinni með tveimur kerfum, annars vegar sóknarkerfi eða frjálsri sókn og hins vegar kvótakerfi. "Ég held að við Halldór séum sammála um það," segir hann.