Stólalyftan í Hlíðarfjalli er orðin 35 ára gömul en nú hillir undir að ný, stærri og fullkomnari stólalyfta leysi hana af hólmi.
Stólalyftan í Hlíðarfjalli er orðin 35 ára gömul en nú hillir undir að ný, stærri og fullkomnari stólalyfta leysi hana af hólmi.
ÍÞRÓTTA- og tómstundaráð Akureyrar samþykkti á síðasta fundi sínum að óska eftir því við bæjarráð að hafin verði bygging nýrrar stólalyftu í Hlíðarfjalli á árinu í samráði við Vetraríþróttamiðstöð Íslands.

ÍÞRÓTTA- og tómstundaráð Akureyrar samþykkti á síðasta fundi sínum að óska eftir því við bæjarráð að hafin verði bygging nýrrar stólalyftu í Hlíðarfjalli á árinu í samráði við Vetraríþróttamiðstöð Íslands. Ráðið bendir á að núverandi stólalyfta sé mjög slitin og því brýnt að hefja undirbúning og framkvæmdir strax svo þjónustuhlutverk skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli verði ekki í hættu.

Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær hefur verið ákveðið að ráðast í umfangsmiklar endurbætur á veginum upp í Hlíðarfjall, byggja hann upp og leggja bundnu slitlagi á næsta ári.

Fjögurra sæta lyfta flytur um 1.800 manns

Guðmundur Karl Jónsson, forstöðumaður Skíðastaða í Hlíðarfjalli, sagði að þetta væru vissulega ánægjulegar fréttir enda væru vegurinn og stólalyftan á svipuðum aldri, eða um 35 ára, og því kominn tími á endurnýjun.

Guðmundur Karl sagði að með tilkomu nýrrar fjögurra sæta stólalyftu myndi aðstaðan í fjallinu batna til mikilla muna og biðraðir við lyftur minnka mikið. Núverandi stólalyfta er tveggja sæta og flytur um 450 manns á klukkustund en fjögurra sæta lyfta flytur um 1.800 manns á klukkustund. Talið er að heildarkostnaður við uppkomna lyftu sé um 150 milljónir króna.

Guðmundur Karl sagði jafnframt að endurbygging vegarins upp í Hlíðarfjall kæmi til með að breyta allri aðstöðu þar og auka möguleika svæðisins til muna. "Með tilkomu bundins slitlags á veginn mun umferð í fjallið aukast mikið og þetta gefur okkur líka möguleika á að nýta svæðið betur allt árið og vera þarna jafnvel með einhverja starfsemi yfir sumartímann," sagði Guðmundur Karl.