DAGSKRÁ sjómannadagsins verður með hefðbundnum hætti í Hafnarfirði og verður dagskráin með veglegra móti í ár. Sjómannamessan hefst í Fríkirkjunni kl. 11 og er það Einar Eyjólfsson fríkirkjuprestur sem þjónar fyrir altari.

DAGSKRÁ sjómannadagsins verður með hefðbundnum hætti í Hafnarfirði og verður dagskráin með veglegra móti í ár.

Sjómannamessan hefst í Fríkirkjunni kl. 11 og er það Einar Eyjólfsson fríkirkjuprestur sem þjónar fyrir altari. Strax eftir hádegi verður bæjarbúum boðið í ókeypis skemmtisiglingu með nýja hafnsögubátnum, sem fengið hefur heitið Hamar, og hvalaskoðunarbátunum Húna II og Eldingu. Siglt verður frá suðurhöfninni kl. 13.

Hátíðardagskráin sjálf hefst síðan kl. 14 og fer fram rétt hjá Kænunni, nánar tiltekið á svæðinu framan við fiskmarkaðinn. Flutt verða ávörp í tilefni dagsins og aldraðir sjómenn heiðraðir. Að því loknu fer fram skemmtidagskrá með rímnakveðskap, barnahljómsveitinni Kiðlingunum og von er á trúð í heimsókn. Hefðbundnar sjómannadagsíþróttir eins og koddaslagur og kappróður hafa sinn sess og einnig verður björgunarsýning, þyrluflug og listflugsýning. Lúðrasveit Hafnarfjarðar leikur og gestum er boðið til grillveislu við fiskmarkaðinn á meðan dagskráin stendur yfir.

Frá klukkan eitt verður Siglingaklúbburinn Þytur með opið hús og kynningu á starfsemi klúbbsins, auk þess sem boðið verður upp á siglingar á skútum klúbbsins frá flotbryggjunni. Þess má geta að aðgangur er ókeypis í Sjóminjasafn Íslands um helgina og er safnið opið frá 13 til 17 á laugardag. Á sunnudag opnar safnið kl. 10 og munu aldraðir sjómenn sýna gömul handbrögð auk þess sem leikið verður á harmoniku.