Berglind Ósk Ragnarsdóttir
Berglind Ósk Ragnarsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÞÆR voru mátulega ósammála um hjátrúna vinkonurnar Berglind Ósk Ragnarsdóttir og Hugrún Harðardóttir. Þær eru jafnaldra, báðar 25 ára, og af þeirri kynslóð sem ef til vill lætur hjátrú og hindurvitni síst trufla sig.

ÞÆR voru mátulega ósammála um hjátrúna vinkonurnar Berglind Ósk Ragnarsdóttir og Hugrún Harðardóttir. Þær eru jafnaldra, báðar 25 ára, og af þeirri kynslóð sem ef til vill lætur hjátrú og hindurvitni síst trufla sig. Hugrún kvaðst trúa á margt af því sem henni var sagt í uppeldinu en Berglind Ósk hafði ákveðnar efasemdir.

Hugrún sagði strax já við spurningunni um það hvort hún tryði á huldufólk en Berglind Ósk neitaði afdráttarlaust. "Mér finnst til dæmis alveg rétt að leggja vegi framhjá álagablettum og álfabyggð," sagði Hugrún en Berglind Ósk hristi höfuðið og brosti að þessari vitleysu. Hún kvaðst þó venjulega ganga framhjá stiga ef hún kæmi því við, en það væri eiginlega frekar í gríni og af gömlum vana en að hún tryði því að það boðaði ógæfu. Hugrún kvaðst láta sig hafa það að ganga undir stiga, en þó væri henni ekki alveg sama.

Þær kváðust báðar hafa heyrt það í uppvextinum að það boðaði ógæfu ef svartur köttur gengi þvert á leið þeirra. Berglind Ósk sagði að það truflaði sig ekki, en Hugrún var ekki alveg viss og kvaðst þá stundum hugsa með sér: "Æ, þurfti hann nú endilega að vera þarna." Berglind Ósk bætti því við að hún hefði heyrt að maður ætti að skyrpa yfir öxlina á sér til að afstýra ógæfunni ef svartur köttur yrði á vegi manns.

Þær Hugrún og Berglind Ósk voru þó ekki ósammála um allt. Þær kváðust báðar berja í tré og segja sjö, níu, þrettán þegar svo bæri undir og hvorug hafði trú á því að það boðaði sjö ára ógæfu að brjóta spegil. "Þetta er bara eitthvað sem maður hefur heyrt um, en það angrar mig ekki," sagði Hugrún. Berglind Ósk var sammála og bætti svo við: "Mamma kenndi mér að sofa með kennslubókina undir koddanum nóttina fyrir próf og ég gerði það oft. Þetta er eiginlega eina hjátrúin sem ég hef haft," sagði hún.