Ritstjóri Fregna, Sjúrður Skalle (lengst t.v.) ásamt nokkrum úr Fregna-teyminu. Uni Arge hallar sér fram á borðið en standandi eru Jonhard Mikkelsen, Andrass Samuelsen og Eva Brekkstein.
Ritstjóri Fregna, Sjúrður Skalle (lengst t.v.) ásamt nokkrum úr Fregna-teyminu. Uni Arge hallar sér fram á borðið en standandi eru Jonhard Mikkelsen, Andrass Samuelsen og Eva Brekkstein.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrir tveimur mánuðum hóf göngu sína í Þórshöfn í Færeyjum vikublaðið Fregnir sem, að sögn Auðuns Arnórssonar, hefur með metnaðarfullri blaðamennsku náð að hrista upp í fjölmiðlalandslagi Færeyja.

RITSTJÓRI Fregna er Sjúrður Skaale, en hann hefur víðtæka reynslu úr blaðamennsku í Færeyjum. Hann hóf þann feril á fréttastofu færeyska sjónvarpsins, síðan var hann um skeið á ritstjórn Dimmalætting, stærsta dagblaðs Færeyja, þá á Sosialurin, næststærsta dagblaðinu, en síðustu tvö árin, fram í janúar á þessu ári, starfaði hann sem blaðafulltrúi færeysku landstjórnarinnar.

"Við sem stofnuðum þetta blað settum okkur að markmiði að stunda gæðablaðamennsku, en við þær aðstæður sem fjölmiðlar búa hér í Færeyjum er erfitt að gera það á dagblaði sem þarf að koma út á hverjum degi. Þess vegna varð það úr að Fregnir varð vikublað," segir Sjúrður í samtali við Morgunblaðið.

Flokkspólitísk tengsl reynt á þolrifin

En hver var kveikjan að því að ráðizt var í útgáfu Fregna? Sjúrður útskýrir: "Hin flokkspólitísku tengsl færeysku dagblaðanna hafa að mínu mati reynt mjög á þolrifin, einkum og sér í lagi eftir að landstjórnin sem nú situr tók við stjórnartaumunum fyrir rúmum þremur árum og setti stefnuna á sjálfstæði. Stærsta dagblaðið, Dimmalætting, hefur að vísu svo að segja óháða ritstjórn, en blaðið á sér djúpar rætur í Sambandsflokknum og það kemur fram í leiðaraskrifum þess. Og hitt blaðið, Sosialurin, er flokksmálgagn Jafnaðarmannaflokksins. Þessir flokkar, Sambandsflokkurinn og Jafnaðarmannaflokkurinn, eru í stjórnarandstöðu og berjast báðir gegn sjálfstæðisstefnu landstjórnarinnar. Það er ekki sízt þetta ástand á blaðamarkaðnum sem kallaði á nýtt blað sem gæti verið vettvangur vandaðrar blaðamennsku þar sem sjónarmið sjálfstæðissinna fengju að njóta sín betur. Við töldum að það væri markaður fyrir slíkt blað hér."

Sjúrður segir 25 aðila standa að útgáfufélagi Fregna, flestir séu þeir færeyskir athafnamenn sem hafi deilt þeirri skoðun með ritstjóranum að skapa þyrfti vettvang fyrir sjónarmið sjálfstæðissinna.

Nú eru komin út tíu tölublöð og segir Sjúrður upplagið vera í kring um 4.000; blaðið rati inn á um fjórðung allra heimila í Færeyjum. Stefnt sé að því að áskrifendur verði að minnsta kosti 1.600. Til samanburðar má geta þess að hinu rótgróna Dimmalætting er dreift í 9.000 eintökum. Íbúar Færeyja eru nú um 46.000.

Dagblaðið, flokksmálgagn Þjóðarflokksins, flokks Anfinns Kallsberg lögmanns Færeyja, kemur út vikulega en það má muna sinn fífil fegurri, að minnsta kosti hefur það lítið skoðanamyndandi vægi í hinni opinberu umræðu í Færeyjum, ólíkt Sosialurin og Dimmalætting. Önnur blöð sem gefin eru út í Færeyjum eru Oyggjatíðindi sem kemur út tvisvar í viku, Norðlýsið sem kemur út vikulega í Klakksvík, og FF/FA-blaðið, sem flytur fréttir af sjávarútvegsmálum og kemur út hálfsmánaðarlega.

Fastir blaðamenn ritstjórnar Fregna eru fjórir, en blaðinu berst líka reglulega efni frá fleiri lausapennum, að sögn Sjúrðar. Meðal föstu blaðamannanna er Uni Arge, sem á Íslandi er betur þekktur fyrir knattspyrnulistir sínar.

Burðarefnið er niðurstöður nýrra sagnfræðirannsókna

Meðal burðarefnis í fyrstu tölublöðum Fregna eru niðurstöður sagnfræðilegra rannsókna á atburðarásinni í kring um þjóðaratkvæðagreiðsluna árið 1946, þegar kosið var um tillögu dönsku stjórnarinnar um heimastjórnarlögin, sem enn þann dag í dag er stjórnskipunarlegur grundvöllur þeirra sjálfstjórnarréttinda sem Færeyingar þó njóta.

Þessi atkvæðagreiðsla fór þannig, að naumur meirihluti felldi tillöguna, en hún var ekki talin bindandi þannig að heimastjórnarlögin tóku gildi engu að síður. Lögþingið var leyst upp og þingmennirnir sendir heim. Meðal þess sem þessar sagnfræðirannsóknir leiddu í ljós er að Danir voru jafnvel undir það búnir að beita hervaldi til að halda í skefjum þeim Færeyingum sem þá beittu sér hvað mest fyrir sambandsslitum.

Þessar og fleiri æsilegar uppljóstranir úr færeyskri stjórnmálasögu hafa skapað Fregnum áberandi sess í opinberri umræðu í Færeyjum. Og ritstjórinn er bjartsýnn á að blaðinu takist að halda þessum dampi og halda áfram að gegna virku skoðanamyndandi hlutverki í Færeyjum.

Lögþingskosningar verða vorið 2002 og má því bóka að á næstu mánuðum muni fara að hitna í kolunum í hinum pólitísku átökum fylkinganna tveggja, sjálfstæðis- og sambandssinna. Þegar kosningar nálgast má gera ráð fyrir að þrýstingur aukist á flokkstengdu blöðin að fylgja gefinni flokkslínu og hyggur ritstjóri Fregna að þessar aðstæður skapi blaði sínu ótvíræð sóknarfæri.

Heimasíðu Fregna er að finna á vefslóðinni: www.fregnir.fo, en með þeim takmarkaða mannafla sem blaðið hefur yfir að ráða hefur ekki reynzt unnt að byggja upp virka netfréttasíðu enn sem komið er.