ÉG ER alltaf jafn hjátrúarfull og skammast mín ekkert fyrir það," sagði Dóra Gunnarsdóttir. Hún kvaðst vera alin upp á Siglufirði til 12 ára aldurs og þar hefði hjátrú manna einkum beinst að sjómennsku og sjósókn svo sem gefur að skilja.

ÉG ER alltaf jafn hjátrúarfull og skammast mín ekkert fyrir það," sagði Dóra Gunnarsdóttir. Hún kvaðst vera alin upp á Siglufirði til 12 ára aldurs og þar hefði hjátrú manna einkum beinst að sjómennsku og sjósókn svo sem gefur að skilja. "Þetta var mest tengt veiðunum, til dæmis vildu sjómenn helst ekki hefja vertíð á mánudögum, og gerðu það yfirleitt ekki. Ég held að þessi hjátrú lifi góðu lífi enn í dag," sagði Dóra.

Hún sagðist ekki muna eftir því að trú á huldufólk hefði verið svo mikil á Siglufirði á þessum árum. "En ég var í sveit á bænum Réttarholti í Skagafirði og þar trúðu menn því að huldufólk byggi í hólum og klettum. Ég trúi því enn. Ég er svo óskaplega hrifin af álfum og alls konar furðuverum."

Dóra kvaðst auk þess vera uppfull af allskonar hjátrú og sérvisku í daglega lífinu og nefndi sérstaklega að hún gengi aldrei undir stiga ef hún mögulega kæmist hjá því. "Ég vil heldur ekki sjá svarta ketti og liggur við að ég fari heim og leggist undir feld ef svartur köttur skýst í veg fyrir mig. Ég slæ alltaf sjö, níu, þrettán þegar það á við og það verður að vera í tré. Það er alveg gagnslaust að banka í plast eða járn. Ég trúi því líka að það boði sjö ára ógæfu ef spegill brotnar heima hjá mér. Öðru máli gegnir ef hann brotnar úti í bæ eða til dæmis á vinnustaðnum hér í búðinni. Við erum með svo mikið af speglum hérna að það er ekki hægt að komast hjá því að brjóta einn og einn og þess vegna horfi ég framhjá því. En guð hjálpi mér ef ég brýt spegil heima. Það er svona ýmislegt sem situr í manni og mér finnst bara gaman að halda í þessa gömlu þjóðtrú," sagði Dóra Gunnarsdóttir.