Ástþór Jóhannsson við laxastigann í Straumfjarðará.
Ástþór Jóhannsson við laxastigann í Straumfjarðará.
LOKIÐ er byggingu laxastiga í Straumfjarðará á sunnanverðu Snæfellsnesi. Straumfjarðará er ein af náttúruperlunum þar sem veiðimenn sækjast eftir óspilltri náttúru.

LOKIÐ er byggingu laxastiga í Straumfjarðará á sunnanverðu Snæfellsnesi. Straumfjarðará er ein af náttúruperlunum þar sem veiðimenn sækjast eftir óspilltri náttúru. Sömu menn koma ár eftir ár og njóta náttúrunnar auk þess að veiða í skemmtilegri laxveiðiá. Umgengni veiðimanna við ána ber þess merki að þeir ætla sér að koma aftur. Veitt hefur verið á þrjár stengur í einu og í fimm ár hefur einungis verið veitt á flugu.

Fiskurinn hefur átt í erfiðleikum með að komast upp fyrir svokallaðan Dalfoss í landi Dals. Sum árin hefur ekkert gengið ofar og önnur dálítið, hefur það alveg farið eftir vatnsmagni árinnar. Því var ákveðið að byggja laxastiga til að opna efri hluta árinnar fyrir fiski. Einnig kom þar til að nýbyggður Vatnaheiðarvegur auðveldar aðkomu að ánni fyrir ofan Dalfoss. Hægt er því að bæta við fjórðu stönginni auk þess sem mikið ókannað útivistarsvæði opnast.

Helstu hrygningarsvæði árinnar eru ofan við Dalfoss svo stiginn auðveldar laxinum að komast þangað auk þess sem mjög góð búsetuskilyrði eru í efri hluta árinnar. Nýja svæðið sem opnast bæði fyrir laxinn og veiðimenn er á þriðja kílómetra.

Að sögn Ástþórs Jóhannssonar í Dal var veiði í Straumfjarðará heldur með minna móti á síðastliðnu sumri eins og annars staðar. Annars hefur áin verið jöfn, veitt á þrjár stengur og meðalveiði hefur verið um 300 laxar. Ævinlega er bókað langt fram í tímann. Við byggingu laxastigans opnast möguleiki fyrir einn veiðimann í viðbót auk fjölda nýrra veiðistaða.