SJÓMINJASAFN Íslands, Vesturgötu 8 í Hafnarfirði, er nú opið alla daga frá kl. 13-17 fram til 30. september. Í safninu stendur nú yfir handverkssýning Ásgeirs Guðbjartssonar en vegna fjölda áskorana hefur verið ákveðið að framlengja sýninguna til 22.

SJÓMINJASAFN Íslands, Vesturgötu 8 í Hafnarfirði, er nú opið alla daga frá kl. 13-17 fram til 30. september.

Í safninu stendur nú yfir handverkssýning Ásgeirs Guðbjartssonar en vegna fjölda áskorana hefur verið ákveðið að framlengja sýninguna til 22. júlí, segir í fréttatilkynningu. Ásgeir Guðbjartsson, sem er sjálfmenntaður listamaður, er fæddur árið 1927 í Hafnarfirði. Helsta viðfangsefni Ásgeirs eru myndir frá sjávarsíðunni.

Í Sjóminjasafninu eru til sýnis munir og myndir er tengjast fiskveiðum, sjómennsku og siglingum fyrri tíma, þ.á m. landhelgisbáturinn Ingjaldur, gömul sjóklæði úr skinni, köfunarbúnaður, togvíraklippur úr þorskastríðunum, líkön, ýmis veiðarfæri, áhöld og tæki. Boðið er upp á myndbandasýningu á efstu hæðinni í sumar auk þess sem aldraðir sjómenn kynna verklega sjóvinnu við sérstök tækifæri. Sjóminjasafn Íslands og Byggðasafn Hafnarfjarðar hafa frá því á síðasta ári haft sameiginlegan aðgöngumiða sem gildir að söfnunum báðum, Sívertsenshúsi, Smiðjunni og Siggubæ.