Hernan Cattaneo að framkalla svitaský.
Hernan Cattaneo að framkalla svitaský.
BRESKI næturklúbburinn Cream teygir nú anga sína hingað til lands á tveggja vikna fresti. Þetta gera aðstandendur klúbbsins í samstarfi við útvarpsstöðina FM 957 og Thomsen, þar sem dansveislurnar fara fram, fram eftir nóttu á föstudögum.

BRESKI næturklúbburinn Cream teygir nú anga sína hingað til lands á tveggja vikna fresti. Þetta gera aðstandendur klúbbsins í samstarfi við útvarpsstöðina FM 957 og Thomsen, þar sem dansveislurnar fara fram, fram eftir nóttu á föstudögum. Næturklúbbamenningin svokallaða hefur aldrei náð að festa hér rætur en nú verður vonandi breyting á.

Í kvöld ætlar Ibiza-plötusnúðurinn Hernan Cattaneo að framkalla sömu sólarstrandastemmningu og þekkist þar syðra fyrir dansóða Íslendinga. Hann er í fullu starfi á Ibiza á sumrin en þess á milli þeytir hann skífum víðs vegar um heim.

Cattaneo er frá Argentínu og hefur fimmtán ára reynslu að baki sem plötusnúður og þykir bera sérlega gott skynbragð á þá hópa sem hann leikur fyrir hverju sinni. Hann hittir oftast á dansvænustu tónana og er fullfær um að framkalla svitarakt andrúmsloft á stærstu stöðum. Sést hefur til hans í plötusnúðaklefanum við hlið ekki ómerkari manna en Paul Oakenfold, Sasha, John Digweed, Justin Robertson, Darren Emerson, BT, Danny Rampling, Seb Fotaine, Dave Seaman, David Morales, Green Velvet, Deep Dish og fleirum og fleirum. Hann ætti því að kunna sitt fag drengurinn.

Húsið er opnað kl. 23 og miðaverð er 750 kr. Það borgar sig að mæta snemma því eftir kl. 2 fer verðbólgudraugurinn á kreik og rífur verðið upp í 1.500 kr.