BORGARHOLTSSKÓLI mun á næsta skólaári bjóða upp á nýtt starfsnám í upplýsinga- og fjölmiðlagreinum. Nám í upplýsinga- og fjölmiðlagreinum er nýjung á Íslandi, nýjung sem byggist á gömlum merg iðngreina prentiðnaðarins.

BORGARHOLTSSKÓLI mun á næsta skólaári bjóða upp á nýtt starfsnám í upplýsinga- og fjölmiðlagreinum. Nám í upplýsinga- og fjölmiðlagreinum er nýjung á Íslandi, nýjung sem byggist á gömlum merg iðngreina prentiðnaðarins. Námstíminn er 3 námsár, þar af 4 annir í skóla og 12 mánaða starfsþjálfun á vinnustað. Skólanámið skiptist í 58 eininga sameiginlegt grunnnám og 20 eininga sérnám.

Með próf af upplýsinga- og fjölmiðlabraut, sem þreytt er við lok sérnáms í skóla, getur nemandi farið í starfsþjálfun hjá viðurkenndu fyrirtæki og lokið starfsnámi á sérsviði sínu eða haldið áfram skólanámi á framhaldsskólastigi, t.d. til stúdentsprófs eða lokaprófs í margmiðlun á listnámsbraut. Að lokinni starfsþjálfun gangast nemendur undir sveinspróf eða fagpróf í viðkomandi iðn. Til að byrja með verða tvö sérsvið kennd í Borgarholtsskóla, fjölmiðlatækni og veftækni. Í fjölmiðlatækni er lögð áhersla á margmiðlun, textaframsetningu, og tæknilega úrvinnslu fjölmiðlaefnis. Í veftækni er hins vegar lögð áhersla á vefhönnun og vinnubrögð við vefmiðlun.

Umsóknarfrestur fyrir skólavist rennur út á morgun, 9. júní. Innritun fer fram í Borgarholtsskóla við Mosaveg í dag, 8. júní, frá kl. 11 til 18.