STJÓRNVÖLD í Suður-Kóreu hafa fagnað þeirri ákvörðun Bandaríkjamanna að hefja á ný viðræður um öryggismál og frið milli Norður- og Suður-Kóreu við kommúnistastjórnina í norðurhlutanum.

STJÓRNVÖLD í Suður-Kóreu hafa fagnað þeirri ákvörðun Bandaríkjamanna að hefja á ný viðræður um öryggismál og frið milli Norður- og Suður-Kóreu við kommúnistastjórnina í norðurhlutanum. George Bush Bandaríkjaforseti hefur gefið í skyn að hægt verði að slaka á viðskiptahömlum gegn Norður-Kóreu ef árangur næst í viðræðum um eldflaugasmíði N-Kóreu.

Bandaríkjamenn eru með um 30.000 manna herlið í Suður-Kóreu en þeir vörðu landið þegar kommúnistar réðust suður yfir landamærin árið 1950 og reyndu að sameina ríkin tvö með valdi. Kóreustríðinu lauk 1953 en ekki hafa enn verið gerðir friðarsamningar milli deiluaðila.

Skýrt var frá stefnubreytingu Bandaríkjastjórnar á miðvikudag. Ekki hafði heyrst neitt um viðbrögð Norður-Kóreumanna í gær en þeir hafa að jafnaði mikið herlið á landamærunum að Suður-Kóreu. Óttast hinir síðarnefndu að norðanmenn gætu skyndilega gert árás yfir landamærin en höfuðborg S-Kóreu, Seoul, er skammt sunnan landamæranna. Óformlegur fulltrúi Norður-Kóreu í Japan, Kim Myong Chol, fagnaði þó stefnubreytingu Bush og sagði Norður-Kóreumenn reiðubúna að hefja viðræður.

Seoul. AP.