DONALD Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði á fundi varnarmálaráðherra NATO-ríkja í Brussel í gær að Bandaríkjastjórn myndi halda til streitu áformum sínum um að koma upp eldflaugavarnakerfi og að það væri "einfaldlega...

DONALD Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði á fundi varnarmálaráðherra NATO-ríkja í Brussel í gær að Bandaríkjastjórn myndi halda til streitu áformum sínum um að koma upp eldflaugavarnakerfi og að það væri "einfaldlega óhjákvæmilegt" að fara á svig við Gagneldflaugasáttmálann frá 1972.

Rumsfeld sagði Bandaríkjunum og bandamönnum þeirra stafa stöðugt meiri ógn af "útlagaríkjum" og hryðjuverkahópum og að nauðsynlegt væri að koma upp eldflaugavarnakerfi til að forða því að unnt væri að "halda þjóðunum í gíslingu." Rumsfeld kvað eldflaugavarnakerfi vera í þágu allra aðildarríkja NATO og hvatti bandalagsríkin til að leggja blessun sína yfir áformin. Boðskapur Rumsfelds virtist ekki fá meiri hljómgrunn en erindi Colins Powells, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna í Búdapest í síðustu viku. En varnarmálaráðherrann sagði að viðræðum yrði haldið áfram, bæði við bandalagsríkin og Kínverja og Rússa sem hafa mótmælt áformunum hvað ákafast.

Rumsfeld mun taka málið upp á fundi með Sergei Ívanov, varnarmálaráðherra Rússa, í dag. Þá er búist við að eldflaugavarnir komi til umræðu á fundi George W. Bush Bandaríkjaforseta og Vladímírs Pútíns Rússlandsforseta í Slóveníu í næstu viku.

George Robertson, framkvæmdastjóri NATO, vísaði því á bug í opnunarræðu fundarins í gær að klofnings væri farið að gæta innan bandalagsins vegna eldflaugavarnaáforma Bandaríkjamanna.

Ofbeldisverk í Makedóníu fordæmd

Meðal annarra umræðuefna á fundinum í gær voru ástandið í Makedóníu og áform Evrópusambandsins um að koma upp hraðsveitum til að bregðast við neyðarástandi og halda uppi friðargæslu.

Robertson fordæmdi í gær ofbeldisverkin í Makedóníu undanfarna daga og embættismenn innan NATO vöruðu Makedóníustjórn við því að lýsa yfir stríðsástandi í landinu.

Brussel. AFP, AP.