SAMSTJÓRN jafnaðarmanna og kristilegra demókrata í Berlín lauk í gær er þeir fyrrnefndu sögðu sig úr henni vegna fjármálakreppunnar í borginni.

SAMSTJÓRN jafnaðarmanna og kristilegra demókrata í Berlín lauk í gær er þeir fyrrnefndu sögðu sig úr henni vegna fjármálakreppunnar í borginni. Búist er við að efnt verði til nýrra kosninga og þykir ekki loku fyrir það skotið að arftakar austurþýska kommúnistaflokksins muni að þeim loknum fá nokkur áhrif á stjórn borgarinnar.

Peter Strieder, leiðtogi jafnaðarmanna í Berlín, sagði í gær að samstjórn stóru flokkanna hefði ekki verið orðin annað en nafnið tómt og einkennst af gagnkvæmri tortryggni. Sagði hann að jafnaðarmenn samþykktu ekki þær neyðarráðstafanir í fjármálum borgarinnar sem Eberhard Diepgen, borgarstjóri og leiðtogi kristilegra demókrata, hefði kynnt.

Glannaleg útlán

Fjármálakreppan í Berlín stafar af gífurlegu útlánatapi Bankgesellschaft Berli, banka sem er að 57% í eigu borgarsjóðs. Jós hann út fé á báðar hendur í þenslunni, sem var á fasteignamarkaði í borginni eftir sameiningu þýsku ríkjanna, og þarf nú strax að fá um 182 milljarða íslenskra króna og 273 milljarða alls til að komast hjá gjaldþroti. Kenna jafnaðarmenn Diepgen borgarstjóra og kristilegum demókrötum um það hvernig komið er.

Diepgen segist ekki hræddur við kosningar og hann sakar jafnaðarmenn um að ætla sér að leiða PDS, flokk lýðræðislegra sósíalista, arftaka kommúnista, til áhrifa í borginni.

Fastir í gamla kerfinu

Fréttaskýrendur segja að báðir stóru flokkarnir í borginni hafi dagað uppi í því gagnkvæma hagsmunakerfi er var við lýði er borgin var eins konar útvörður vestræns lýðræðis á tímum kalda stríðsins og naut þá ómældra styrkja. Með sameiningunni hurfu þessir styrkir smám saman án þess þó að borgarfeðurnir breyttu mikið hugsunarhætti sínum og starfsaðferðum. Hans Eichel, fjármálaráðherra Þýskalands, neitar að koma borginni til hjálpar með alríkisfé og sumir taka svo djúpt í árinni að segja að hún sé í raun gjaldþrota.

Kristilegir demókratar, CDU, fengu tæplega 41% atkvæða í Berlín 1999, jafnaðarmenn, SPD, 22,4% og PDS tæp 18%. Nýlegar skoðanakannanir gefa CDU 31%, SPD 29% og PDS 14%.

Berlín. AFP, Reuters.