Hvítir kollar við skólaslit Kvennaskólans í Reykjavík.
Hvítir kollar við skólaslit Kvennaskólans í Reykjavík.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
KVENNASKÓLANUM í Reykjavík var slitið í 127. sinn við hátíðlega athöfn í Hallgrímskirkju 2. júní að viðstöddu fjölmenni.

KVENNASKÓLANUM í Reykjavík var slitið í 127. sinn við hátíðlega athöfn í Hallgrímskirkju 2. júní að viðstöddu fjölmenni.

Í skólaslitaræðu sinni ræddi Ingibjörg Guðmundsdóttir skólameistari um verkfall framhaldsskólakennara og áhrif þess á skólastarf síðastliðinn vetur, nýju námskrána sem skólinn starfar nú eftir og aukið sjálfstæði skóla. Einnig fjallaði hún um húsnæðisvanda skólans.

Hæsta einkunn á stúdentsprófi frá upphafi

Alls stunduðu 518 nemendur skólann í vetur í 22 bekkjardeildum undir leiðsögn 46 kennara. Piltar voru um þriðjungur nemenda. Stúdentsprófi luku 108 nemendur.

Dúx skólans er Sigríður Karlsdóttir, nemandi á náttúrufræðibraut með einkunnina 9,51. Þetta er hæsta einkunn sem nemandi hefur hlotið á stúdentsprófi við skólann. Hæstu einkunn á stúdentsprófi á félagsfræðibraut hlaut Hafdís Einarsdóttir, 9,24, og hæstu einkunn á nýmálabraut hlaut Gísla Rún Kristjánsdóttir, 8,84.

Verðlaun voru afhent fyrir góðan námsárangur í ýmsum greinum á stúdentsprófi. Flest verðlaun fengu Sigríður Karlsdóttir, Magdalena Rós Guðnadóttir, Halla Hrund Logadóttir og Brynhildur Tinna Birgisdóttir á náttúrufræðibraut, Vala Hrönn Bjarkadóttir og Þórey Ósk Ágústsdóttir á nýmálabraut og Hafdís Einarsdóttir á félagsfræðibraut. Þá hlaut Sigríður Karlsdóttir "Stúdentspennann 2001" úr verðlaunasjóði dr. Guðrúnar P. Helgadóttur fyrir bestu stúdentsritgerðina. Aðalverðlaun skólans, verðlaun úr Minningarsjóði frú Þóru Melsteð, stofnanda Kvennaskólans í Reykjavík, fyrir hæstu meðaleinkunn og besta heildarárangur á stúdentsprófi 2001 hlaut Sigríður Karlsdóttir á náttúrufræðibraut.

Í lok athafnarinnar ávarpaði Ingibjörg Guðmundsdóttir skólameistari nýstúdenta og María Rún Bjarnadóttir flutti ræðu fyrir þeirra hönd. Halla Vilhjálmsdóttir nýstúdent söng við undirleik Harðar Áskelssonar organista.

Fulltrúar tíu ára stúdenta voru viðstaddir útskriftina og talaði Hrönn Birgisdóttir fyrir þeirra hönd og færði skólanum peningagjöf. Eftir athöfnina var öllum viðstöddum boðið að þiggja veitingar í Kvennaskólanum.