Hrafn Thoroddsen vélamaður, Jakob Magnússon háseti og Helgi Björnsson skipstjóri.
Hrafn Thoroddsen vélamaður, Jakob Magnússon háseti og Helgi Björnsson skipstjóri.
Í kvöld verður SSSól í Ýdölum. Birgir Örn Steinarsson hitti Helga Björnsson, Jakob Magnússon og Hrafn Thoroddsen og kynnti sér sumartúrinn.

SUMARIÐ er tíminn, a.m.k. sá tími sem "skemmtiferðaskipið" SS-Sól fer af stað. Skipstjórinn er enginn annar en hinn landsþekkti Helgi Björnsson, en hann skellir sér ósjaldan upp á svið til þess að syngja með húshljómsveitinni, en það er skemmtiatriði sem gestir kunna vel að meta. Það fer hver að verða síðastur að skella sér um borð, skipið er í þann mund að losa landfestar og partíið því að byrja. "Þetta er stór túr ef við teljum í kílómetrum," tilkynnir Jakob Magnússon vélstjóri og bassaleikari húshljómsveitarinnar.

Stoppin verða ekki mörg í þessari ferð en þó er þess gætt að leggja upp að fjölsóttum stuð-höfnum.

"Við verðum í Ýdölum á föstudagskvöldið og í Stapanum á laugardagskvöldið," tilkynnir Helgi skipstjóri.

Ómar Ragnarsson í stuði

Eins og flestir vita hefur skipið haldist lengi á floti og án þess að lenda í alvarlegum brotsjó. Eftir öll þessi ár hefur siglingaleiðin verið að mótast hægt og rólega og stoppunum fækkað. Nú stoppar Helgi kafteinn aðeins á þeim stöðum, sem hann þekkir eins vel og handarbakið á sér. Það er því auðvelt að ímynda sér að þegar hann lítur til baka, renni allar heimsóknirnar í eitt.

"Ég get nú alveg greint á milli þeirra," segir hann og glottir. "Maður man alltaf eftir einhverjum sérstökum atvikum frá hverju balli. Ég man alltaf sérstaklega eftir balli sem var í Njálsbúð með Bong, Spoon og Maus. Það var alveg ferlega skemmtilegt ball, mikill "fílingur" í gangi og geggjuð stemmning. Ómar Ragnarsson mætti og var í miklu stuði."

Ómar er nú einn þeirra heppnu sem ekki þarf að hafa áhyggjur af því að verða ekki heimilaður aðgangur vegna aldurs. Aldurstakmarkið hefur um árabil verið 16 ár og Ómar er örlítið eldri en það. En á næstunni gæti vel farið svo að það verði hækkað upp í 18. Þó að Ómar þurfi vart að verða andvaka vegna þess, hefur Helgi áhyggjur af því.

"Þetta er komið á í Miðgarði," segir Helgi. "Sýslumaðurinn setti þessa reglu á og aðstandendur samkomuhússins hafa lagt fram kæru. Þetta verður því dómur sem hnekkir niðurstöðunni eða staðfestir. Á meðan ekki hefur verið dæmt í málinu þá stendur þessi ákvörðun sýslumannsins. Mér finnst þetta bara mjög slæmt. Ég held að þetta eigi ekki eftir að hafa þau áhrif sem þeir eru að vonast eftir. Ef krakkar á þessum aldri ætla sér að ná í brennivín og skemmta sér þá gera þau það. Á dansleikjum ertu með gæslu á staðnum, lögregluna og fíkniefnalögregluna. Þar eru þeir a.m.k. í vernduðu umhverfi. Ef lokað er á svoleiðis, hvað gerist þá? Þá fara krakkarnir bara út í móa eða eitthvað. Það er náttúrulega miklu meiri hætta á því að þar gerist eitthvað slys. Félagsmiðstöðvarnar eru fyrir krakka upp að 16 ára aldri. Krakkar á aldrinum 16-18 komast ekki inn á vínveitingahúsin þannig að það myndast gat þarna. Þannig að ég segi: "You Gotta Fight For Your Right To Party!" (lausleg þýðing: "Það þarf að berjast fyrir partíréttindunum")."

"Þetta verða einu skiptin sem við komum fram í júní, næst spilum við í júlí á Sjallanum og svo í Njálsbúð," segir Helgi að lokum.

Sem sagt; SSSól í Ýdölum í kvöld og Stapanum annað kvöld.