KRAMHÚSINU við Skólavörðustíg hefur verið veitt áminning af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur vegna brota gegn banni við trumbuslætti sem sett var á fyrirtækið í febrúar síðastliðnum.

KRAMHÚSINU við Skólavörðustíg hefur verið veitt áminning af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur vegna brota gegn banni við trumbuslætti sem sett var á fyrirtækið í febrúar síðastliðnum. Heilbrigðiseftirlitið krefst þess að farið verði eftir banninu en að öðrum kosti verði starfsemi Kramhússins takmörkuð enn frekar.

Forsaga málsins er sú að hinn 6. febrúar sendi Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur Kramhúsinu bréf þar sem trommuleikur ("afró") og hvers konar hávaði sem borist gæti í nærliggjandi hús er bannaður þar til fyrirtækið hafi bætt hljóðeinangrun í húsnæði sínu.

Í bréfi frá fyrirtækinu til nágrannanna, dagsettu 26. apríl, segir að endurbótum á húsnæðinu sé lokið og Heilbrigðiseftirlitið hafi heimilað að afrókennsla hefjist á ný.

Í áminningarbréfi Heilbrigðiseftirlitsins er þessu vísað á bug og er bent á að í bréfi til Kramhússins í byrjun apríl hafi Heilbrigðiseftirlitið einungis lýst því yfir að því þyki áætlun fyrirtækisins um endurbætur álitleg og það fallist fyrir sitt leyti á þá áfangaskiptingu sem tilgreind er í bréfinu. Hins vegar sé banni við trommuleik og hávaða ekki aflétt.

Hljóðmælingar í nærliggjandi íbúð

Eftir að Heilbrigðiseftirlitinu bárust enn á ný kvartanir um hávaða frá trumbuslætti og tónlist í Kramhúsinu fór stofnunin í eftirlitsferð í byrjun maí þar sem kvartanirnar voru staðfestar. "Er starfsmenn Heilbrigðiseftirlitsins komu á staðinn barst hávær trumbusláttur frá Kramhúsinu. Ennfremur var talsvert ónæði af fólki sem kom út í garð er hlé var gert á tónlistinni. Þá jókst hávaði gífurlega þegar dyr voru opnaðar meðan á hljóðfæraleik stóð," segir í bréfinu.

Kemur fram að í hljóðmælingum, sem fóru fram í svefnherbergi í nærliggjandi íbúð þegar trumbusláttur barst frá Kramhúsinu, hafi jafngildishljóðstig mælst á bilinu 36-39 desibel og 41-44 desibel eftir leiðréttingar vegna högghljóða. Jafngildishljóðstigið mældist hins vegar 25 desibel á sama stað áður en hljóðfæraleikurinn hófst.

Í niðurlagi áminningarbréfs síns krefst Heilbrigðiseftirlitið þess að tafarlaust verið farið eftir banninu. Þá segir: "Verði vart við trommuleik eða annan hávaða sem veldur ónæði hjá nágrönnum verður leitað liðsinnis lögreglu til að framfylgja banninu. Verði fyrirtækið ekki við kröfum Heilbrigðiseftirlitsins mun verða gripið til þess ráðs að takmarka starfsemi Kramhússins enn frekar."