Leikstjóri: John Blanchard. Handrit: Sue Bailey, Joe Nelms. Aðalhlutverk: Tiffany-Amber Thiessen, Tom Arnold, ofl. Bandaríkin, 2000. Myndform. Bönnuð innan 12 ára.

ÞEIR SEM hafa fengið sig fullsadda af hryllingsmyndaæði Hollywood sem hófst eftir velgengni Scream-myndanna ættu að taka myndum á borð við Skræktu fagnandi. Stólpagrín er gert af klisjunum sem sjá má í unglingahrollvekju eftir unglingahrollvekju og myndin hittir nægilega oft í mark til að vera hin sæmilegasta afþreying, enda þótt kímnigáfan sé jafnan heldur groddaleg. Óþarfi er að lýsa söguþræði myndarinnar, hann er fremur óöguð samsuða úr öðrum myndum, sem hittir stundum í mark, og stundum ekki. En þótt Skræktu falli dálítið í skuggann af Scary Movie, annarri mynd með sama markmið, má gera mörg verri mistök á vídeóleigum borgarinnar en taka þessa með sér heim.

Heiða Jóhannsdóttir