BLESSAÐUR vertu, þetta lifir allt góðu lífi, álfar, tröll og ýmsar vættir," sagði Stefán Pétursson og skellihló þegar hann var spurður hvort hann væri hjátrúarfullur. Stefán býr í Keflavík en ólst upp norður í Svarfarðardal.

BLESSAÐUR vertu, þetta lifir allt góðu lífi, álfar, tröll og ýmsar vættir," sagði Stefán Pétursson og skellihló þegar hann var spurður hvort hann væri hjátrúarfullur. Stefán býr í Keflavík en ólst upp norður í Svarfarðardal. "Það var allt morandi í huldufólki fyrir norðan og er enn," bætti hann við.

Stefán kvaðst hafa alist upp við trú á huldufólk og honum finnst því ástæðulaust að legga vegi þar sem álfar eru taldir búa samkvæmt þjóðtrúnni, ef hægt er að komast hjá því. "Ég lenti eitt sinn í því í vegavinnu vestur í Búðardal, að á vegi okkar varð frægur steinn sem ekki mátti hrófla við. Þetta var Klofasteinn í Dalasýslu og eftir miklar vangaveltur var hann að lokum færður til. Sagan segir að það hafi ýmislegt gengið á í grjótnámunum fyrst á eftir, en ég þori nú ekkert að fullyrða um það."

En þótt Stefán segist trúa á huldufólk ristir hjátrú hans ekki mikið dýpra. Hann kvaðst enga trú hafa á því að svartir kettir boðuðu ógæfu og hann gengur beinustu leið undir stiga þegar því er að skipta. Hann segist heldur ekki banka í tré og þylja upp sjö, níu, þrettán enda hafi það ekki tíðkast í Svarfaðardal þegar hann var að alast upp. "Ég held mig bara við huldufólkið og er alveg laus við hina sérviskuna," sagði Stefán Pétursson og hló.