Kristinn H. Gunnarsson
Kristinn H. Gunnarsson
Kvótasetning aukategunda hjá smábátum, segir Kristinn H. Gunnarsson, skapar vanda sem ber að leysa, en einfaldasta lausnin er að skapa ekki vandann.

VEIÐAR smábáta skipta meira máli en virðist við fyrstu sýn. Ástæðan er einföld: Veiðarnar skapa atvinnu fyrir marga, sérstaklega í fámennum byggðarlögum sem eru mjög háðar sjávarútvegi. Þessi byggðarlög eiga það flest sammerkt að þar var áður togaraútgerð en á síðustu árum hefur útgerð þeirra verið hætt og kvótinn seldur burt eða fyrirtækin fóru á hausinn og kvótinn tapaðist þannig. Í kjölfarið varð veruleg íbúafækkun sem svo heldur hefur hægt á vegna þess að uppgangur varð í útgerð smábáta. Sú útgerð efldist vegna þess að það var ódýrasta leiðin inn í útgerðina, bátar litlir og verð þeirra lágt miðað við stærri skip og það sem skipti miklu máli, ekki þurfti að kaupa kvóta fyrir öllum veiddum afla. Staðirnir þar sem smábátaútgerð er snar þáttur í atvinnulífinu eru margir, flest þorp og bæir á Vestfjörðum, allnokkur byggðarlög á Norðurlandi, Austurlandi, Snæfellsnesi, Suðurnesjum og Suðurlandi. Það að setja allar veiðar smábáta í kvóta þýðir einfaldlega aukinn útgerðarkostnað eða minni veiði og þar með minni tekjur, sem aftur leiðir af sér fækkun útgerða og fækkun starfa. Kvótasetningin breytir forsendum útgerðarinnar og þar með þeim forsendum sem lagðar voru til grundvallar við kaup á bátunum og margir útgerðarmennirnir verða í erfiðleikum fjárhagslega af þeim sökum, en alvarlegastur er þó sá samdráttur í atvinnu sem verður í byggðarlögum þar sem fátt er um önnur störf.

Hvernig á að bregðast við því? Verður stutt við aðra útgerð á þessum stöðum? Er atvinnuuppbygging í öðrum greinum í gangi til mótvægis? Eða kemur stjórnvöldum þetta ekkert við og eiga menn bara að bjarga sér sjálfir og flytjast milli landshluta? Yrði samstaða um að líta svo á, ef stjórnvöld myndu með lagasetningu fækka störfum á höfuðborgarsvæðinu í einu vetfangi um t.d. 10.000, að þá kæmu þeim afleiðingarnar ekkert við? Það held ég ekki, og ég held að engin samstaða sé um að greiða sjávarbyggðunum svo þungt högg sem kvótasetning aukategundanna er. Þvert á móti held ég að mikill vilji sé til þess, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, að afstýra slíku.

Samþykkt flokksþings Framsóknarflokksins

Það kom berlega í ljós á flokksþingi Framsóknarflokksins í mars sl. að vilji flokksmanna stendur til þess að treysta grundvöll sjávarbyggða. Í samþykktinni segir að markmið nýrrar löggjafar um stjórn fiskveiða sé m.a. að tryggja atvinnugrundvöll sjávarbyggða. Leiðir sem bent er á til þess að ná þessu markmiði er að áfram verði byggt á tvískiptu kerfi, aflamarkskerfi annars vegar og smábátakerfi hins vegar, og að smábátakerfið verði blandað aflamarkskerfi og sóknarmarkskerfi. Eins og er hafa allir bátar í smábátakerfinu verið á sóknarkerfi, línubátar flestir hafa þó verið í aflamarki í þorski en sóknarmarki í öðrum tegundum. Eftir gildistöku lagaákvæða um kvóta í öllum tegundum verður nær allur smábátaflotinn í aflamarki, aðeins handfærabátar verða á dagakerfi. Slík niðurstaða er svo fjarri því sem verið hefur að ekki getur hún samrýmst ályktun flokksþingsins um smábátakerfi sem verði blandað aflamarks- og sóknarmarkskerfi.

Þá er líka ályktað "að yggðakvóti verði aukinn til að treysta grundvöll sjávarbyggða", "að starfsskilyrði landvinnslu og sjóvinnslu verði jöfnuð" og "að allur óunninn afli af Íslandsmiðum verði fyrst boðinn til sölu innanlands", sem er til frekari áréttingar því að vilji Framsóknarflokksins stendur til þess sem er meginatriðið; að tryggja atvinnu manna í þessum byggðarlögum. Það byggist á því viðhorfi flokksmanna að það komi stjórnvöldum við hvernig atvinnumál þróast um landið og að það sé meginreglan að menn eigi rétt til þess að hafa atvinnu þar sem þeir hafa kosið sér búsetu. Kvótasetning aukategunda hjá smábátum skapar vanda sem ber að leysa, en einfaldasta lausnin er að skapa ekki vandann.

Höfundur er alþingismaður og formaður þingflokks framsóknarmanna.