[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
1.-15.6. 2001

ÍSLENSKU skákmennirnir á Evrópumótinu í skák hafa fæstir lent í jafnerfiðu skákmóti áður. Í nær hverri umferð er andstæðingurinn stórmeistari, eða í einstaka tilvikum alþjóðlegur meistari. Hannes Hlífar Stefánsson er reyndastur og stigahæstur íslensku keppendanna og hefur fengið flesta vinninga, eða 3½ eftir 6 umferðir. Markmið Hannesar í þessu móti eru tvö. Annars vegar að ná einu af 46 efstu sætunum og tryggja sér þannig þátttöku í heimsmeistaramótinu og hins vegar að hækka á stigum og nálgast þannig enn frekar 2.600 stiga-múrinn. Enn sem komið er á hann góða möguleika á að ná þessum markmiðum, þrátt fyrir tap í sjöttu umferð gegn þýska ofurstórmeistaranum Alexander Graf (2.649). Eftir það tap er Hannes í 44.-85. sæti á mótinu og frammistaðan er nokkurn veginn í takt við skákstigin. Skákáhugamenn munu því fylgjast fullir áhuga með framhaldinu hjá Hannesi.

Ungu skákmennirnir þrír, Stefán Kristjánsson, Jón Viktor Gunnarsson og Bragi Þorfinnsson, geta tæplega gert sér vonir um að ná einu af 46 efstu sætunum á mótinu, enda eru þeir í hópi mikils minnihluta þátttakenda sem eru með innan við 2.400 skákstig. Engu að síður er þetta skákmót gríðarlega mikilvægt fyrir þá. Í fyrsta lagi er mótið góð þjálfun, en ungir íslenskir skákmenn hafa ekki verið nógu duglegir á undanförnum árum að taka þátt í sterkum alþjóðlegum skákmótum. Þátttaka í þessu móti á því eftir að verða þeim gott veganesti fyrir frekari framfarir. Í öðru lagi geta allir þessir þrír ungu skákmenn gert sér góðar vonir um að ná titiláföngum á mótinu og þar gera stigaháir andstæðingar ekkert annað en að auka líkurnar. Stefán Kristjánsson er stigahæstur þeirra og er með 2.371 skákstig. Hann er titillaus og stefnir því að áfanga að alþjóðlegum meistaratitli, sem reyndar yrði þá annar áfangi hans. Eftir fyrstu sex umferðirnar virðist Stefán vera á góðri leið með að ná þessu markmiði. Í sjöttu umferð gerði hann jafntefli við pólska stórmeistarann Jacek Gdanski (2.528), en eftir tap í fyrstu tveimur skákunum hefur hann fengið þrjá vinninga af fjórum gegn sterkum andstæðingum. Meðalstig andstæðinga Stefáns eru 2.528, en Stefán hefur sýnt það allt frá fyrstu skákmótunum sem hann tók þátt í, að hann ber enga virðingu fyrir andstæðingunum óháð titlum þeirra og skákstigum. Í fyrstu sex umferðunum er vinningafjöldi Stefáns 1,68 umfram það sem búast mátti við samkvæmt skákstigum. Það verður því mjög fróðlegt að fylgjast með framvindu mála hjá Stefáni.

Jón Viktor Gunnarsson (2.366) er alþjóðlegur skákmeistari og stefnir því að sínum fyrsta stórmeistaraáfanga. Hann tapaði fyrir spænska stórmeistaranum Pablo San Segundo (2.508) í sjöttu umferð og er nú með 2 vinninga. Það verður því á brattann að sækja fyrir hann í þeim umferðum sem eftir eru ef hann ætlar sér að ná stórmeistaraáfanga. Engu að síður er styrkleiki andstæðinga hans slíkur, að frammistaða hans er betri en stigin gefa til kynna.

Bragi Þorfinnsson (2.292) fór beint á þetta skákmót að afloknum vorprófum og hafði því engan tíma til að undirbúa sig. Reyndar á það því miður við um alla íslensku skákmennina, að þeim var ekki kunnugt um þetta mót og mikilvægi þessi fyrr en skömmu áður en það hófst. Bragi er með 2 vinninga eins og Jón Viktor eftir að hafa gert jafntefli við ítalska stórmeistarann Alexander Zlochevskij (2469) í sjöttu umferð. Bragi hefur einungis tapað tveimur skákum, þrátt fyrir að vera einn stigalægsti keppandinn á mótinu, en hefur gert jafntefli í hinum fjórum. Líkt og hinir tveir ungu skákmennirnir er frammistaða hans betri en ætla mætti samkvæmt skákstigum. Þótt Bragi sé fjær því að eiga möguleika á áfanga að alþjóðlegum meistaratitli heldur en Stefán má ekki gleyma því, að enn eru sjö umferðir til loka mótsins og margt óvænt á eftir að gerast!

Staða Íslendinganna að loknum sex umferðum er þessi:

44.-85. Hannes Hlífar 3½ v.

86.-135. Stefán Kristjánsson 3 v.

156.-186. Jón Viktor 2 v.

156.-186. Bragi Þorfinnsson 2 v.

Það er við hæfi að skoða handbragðið hjá Stefáni Kristjánssyni á þessum tímapunkti, en hann lagði alþjóðlega meistarann og Rússann Smirnov að velli í fimmtu umferð.

Hvítt: Pavel Smirnov (2.511)

Svart: Stefán Kristjánsson

Frönsk vörn

1.e4 e6 2.d4 d5 3.Rc3 Bb4 4.e5 Re7 5.a3 Bxc3+ 6.bxc3 c5 7.Dg4 Kf8!?

Stefán gefur ekki peðið á g7 bardagalaust eins og margir gera.

8.h4 --

Armenski stórmeistarinn, Minasjan, lék 8.Bd2 gegn Stefáni í fyrstu umferð mótsins. Stefán lenti í þeirri skák í þrengingum, sem hann fann enga leið út úr: 8. -- Rbc6 9.Rf3 Da5 10.a4 Bd7 11.Be2 h6 12.0-0 Dc7 13.h4 Ra5 14.h5 Rc4 15.Bxc4 dxc4 16.dxc5 Dxc5 17.Bc1 He8 18.Ba3 Dc8 19.Rd2 Bc6 20.Rxc4 Dc7 21.Rd6 o.s.frv.

8...Da5

Til greina kemur 8...Dc7, t.d. 9.Dd1 Bd7 10.Bd2 Ba4 11.Bd3 Rbc6 12.Rf3 c4 13.Be2 Ke8 14.h5 h6 15.Rh4 Kd7 16.f4 Hag8 17.Bg4 g5!, með nokkuð jöfnu tafli (Leko-Illescas, Ubeda 1997).

9.Bd2 Da4 10.Hc1 Rbc6 11.h5 h6 12.Rf3 b6 13.Hh3 Ba6 14.Bxa6 Dxa6 15.Rh4 cxd4

Þetta mun vera nýr leikur í stöðunni. Í skákinni, Malinin-Legky, París 2000, varð framhaldið 15...Dc4 16.Hg3 Hg8 17.Df4 Ke8 18.Hf3 Kd7 19.De3 cxd4 20.cxd4 Rxd4 21.Hxf7 Ke8 22.Hf4 Rxc2+ 23.Hxc2 Dxc2 24.Rg6 Rxg6 25.hxg6 Hc8 26.Dh3 Dxg6 27.Hf6 gxf6 28.Dxe6+ Kf8 29.Dxc8+ De8 30.Bxh6+ og svartur vann í 44 leikjum.

16.cxd4 Dc4 17.Hg3 Hg8 18.c3 Hc8 19.f4 f5!? 20.exf6 ep? --

Sóknartilburðir hvíts hafa engan árangur borið. Hann hefði átt að hörfa með drottninguna til h3 (eða jafnvel d1), þótt svartur standi betur í því tilviki. Eftir leikinn í skákinni lendir hvítur í miklum erfiðleikum.

20...gxf6 21.Rg6+ --

Eftir 21.Dh3 Kf7 22. Hxg8 Hxg8 23. f5 exf5 24. Bxh6 Hh8 25. Bf4 Hxh5 26. Dg3 Hh8 stendur svartur einnig mun betur.

21...Kf7 22.Dh3 Rf5! 23.Hd3 Rce7!

Það eru tök svörtu riddaranna á hvítu reitunum, f5 og e4, sem tryggja svarti sigurinn í skákinni.

24.g4 Rd6 25.He3 Re4 26.f5? --

Nú hrynur hvíta staðan. Skárra er að bíða átekta með 26.Rxe7 Kxe7 27.He2, t..d. 27. -- Hg7 28. Df3 Hcg8 29. Hg2 f5 30. g5 hxg5 31. fxg5 Rxg5+ 32. Bxg5 Hxg5 33. Hxg5 Hxg5 34. h6. Hg1+ 35. Kd2 Da2+ 36. Hc2 Da1 37. De2 Hh1 og svartur á vinningsstöðu.

26...exf5 27.gxf5 Hce8 28.Dg4? --

Ekki gengur 28.Rf4? Hg1+ 29.Df1 Hxf1+ mát.

28...Dc8! 29.Hf3 --

Nú eru það hótanir um fráskák á e-línunni, ásamt hótunum á g-línunni, sem gera út um skákina, svarti í vil.

29...Rg5! 30.Rxe7 --

Eða 30.Bxg5 Rxg6+ 31.Be3 Re5 og svartur vinnur

30...Hxe7+ 31.Kd1 --

Eða 31.He3 Re4 32.Df4 Hg1+ 33. Ke2 Dc4+ 34. Hd3 Rxd2+ 35. Kxd2 Hg2+ og vinnur.

31...Rxf3 32.Dxf3 Dc4 33.Kc2 He2 34.Hd1 Hgg2 35.Df4 --

35...Hxd2+! 36.Hxd2 Da2+ 37.Kd3 Db1+ 38.Ke3 De1+

og hvítur gafst upp, því að hann verður mát eftir 39. Kd3 Hxd2+ 40. Dxd2 De4+.

Meistaramót Skákskólans hefst í kvöld

Meistaramót Skákskóla Íslands hefst í kvöld, föstudaginn 8. júní, klukkan 20.

Góð verðlaun eru í boði. Mótinu lýkur sunnudaginn 10. júní. Tefldar verða sjö umferðir á mótinu, fyrst þrjár atskákir og síðan fjórar kappskákir. Teflt verður í húsnæði Skákskóla Íslands í Faxafeni 12.

Úr mótaáætlun Skáksambandsins

8.6. Meistaramót Skákskólans

10.6. Hellir. Bikarmót Striksins

13.6. TR. Boðsmótið

16.6. Hellir. Mjóddarmótið

22.6. TG. Íslandsm. 60 ára og e.

23.6. TR. Helgarskákmót

Daði Örn Jónsson Bragi Kristjánsson