SIGURÐUR Ingvarsson var endurkjörinn oddviti Gerðahrepps á hreppsnefndarfundi í fyrrakvöld. Fulltrúar minnihlutans greiddu Finnboga Björnssyni atkvæði.

SIGURÐUR Ingvarsson var endurkjörinn oddviti Gerðahrepps á hreppsnefndarfundi í fyrrakvöld. Fulltrúar minnihlutans greiddu Finnboga Björnssyni atkvæði.

Lengi hafa tvö öfl verið að takast á í hreppsmálunum í Garði, H-listi sjálfstæðismanna og annarra framfarasinnaðra kjósenda og I-listi félags óháðra borgara. H-listinn var lengst af með meirihluta og Finnbogi Björnsson var oddviti um árabil.

Við síðustu kosningar kom fram nýr framboðslisti, F-listi framfarasinnaðra kjósenda og var hann klofningslisti frá H-listanum. Fékk F-listinn fjóra menn kjörna og hefur haft meirihluta hreppsnefndar á kjörtímabilinu. H-listinn fékk tvo fulltrúa og I-listinn einn.

Fjórir gegn þremur

Í upphafi kjörtímabilsins stóð fulltrúi I-listans að nefndakjöri með meirihlutanum. Við oddvitakjör nú og fyrir ári hafa fulltrúar þessarra framboða sem lengi tókust á um völdin staðið saman við oddvitakjör og fékk Finnbogi Björnsson þrjú atkvæði á móti fjórum atkvæðum Sigurðar Ingvarssonar oddvita. Ingimundur Þ. Guðnason, F-lista, var endurkjörinn varaoddviti með fjórum atkvæðum.