Leikstjórn: Clare Kilner. Handrit: Ben Hopkins og Kilner. Aðalhlutverk: Eileen Walsh, Rhys Ifans, Patsy Kensit, Frances Gray og Sandra Voe. 81 mín. Dianphana Films 1999.

ÞAÐ er oft svo að fyrsta verk höfundar er sjálfsævisögulegt að miklu leyti. Einhvern veginn grunar mig að svo sé því farið með þessa fyrstu mynd leikstjórans Clare Kilner. Þar segir frá Janice, sem alla tíð hefur spunnið upp sögur til að vekja áhuga veikrar móður sinnar á umheiminum. Ekki gengur það þó nógu vel og dag einn, þegar Janice er orðin fullvaxta, heldur hún af stað út í hinn stóra heim að afla peninga fyrir hinni einu sönnu lækningu á móðurinni heittelskuðu, sem hefur legið í rúminu frá því eiginmaðurinn lést úr hjartaáfalli við fæðingu dótturinnar.

Þessi grínmynd er ósköp sæt og væn í sínum ævintýrastíl. Janice lendir í ýmsum ævintýrum sem hún að lokum kemst klakklaust út úr vegna þess hvað hún er góð, hugmyndarík og samkvæm sjálfri sér. Einnig sigrast hún á vonda manninum og fær hann til að iðrast synda sinna, köttur úti í mýri...

Sem grínmynd hefði Janice Beard mátt vera fyndnari, þótt klaufaskapur og hugmyndaauðgi stúlkunnar gefi, já, á stundum ástæðu til að skella upp úr. Hugmyndirnar eru margar mjög góðar og handritið hefur áreiðanlega verið skemmtilegt aflestrar þótt það sé ekki fullkomið. Leikstjórnin er hins vegar svolítið klaufaleg og ber öll merki ágætrar útskriftarmyndar.

Leikararnir eru fínir og leikkonan Eileen Walsh er mjög sannfærandi í aðalhlutverkinu. Hún hefði eflaust getað gert enn betri hluti með betra hlutverki, og sama verður að segjast um framlag Patsy Kensit, sem leikur frekar súran yfirritara á nýja vinnustaðnum hennar Janice. Þar vinnur líka sendillinn Sean sem Janice fellur fyrir, leikinn af Rhys Ifans, sem nú er orðinn þekktur fyrir sína kómísku hæfileika, en þessi mynd var gerð strax á eftir Notting Hill. Hann er alltaf jafn fínn, en gaman hefði verið að sjá hann fá að njóta sín betur.

Það er eitthvað ósköp elskulegt við Janice og sögu hennar í heildina, og kannski að Clare Kilner hefði átt að geyma hugmyndina þar til hún næði betri tökum á miðlinum. En það gerði hún ekki, svo þeir, sem þyrstir í öðruvísi mynd, geta hitt Janice hina draumlyndu í Háskólabíói.

Hildur Loftsdóttir