VISTKERFI sjávar á miðunum umhverfis Ísland hefur breyst til batnaðar á síðustu fjórum árum og nýjar athuganir í vorleiðangri Hafrannsóknastofnunar sýna jákvæðar niðurstöður varðandi stöðu vistkerfisins.

VISTKERFI sjávar á miðunum umhverfis Ísland hefur breyst til batnaðar á síðustu fjórum árum og nýjar athuganir í vorleiðangri Hafrannsóknastofnunar sýna jákvæðar niðurstöður varðandi stöðu vistkerfisins. Þessar jákvæðu breytingar koma aðallega til vegna þess að hlýrri sjór og saltari hefur streymt sunnan úr Atlantshafi undanfarin ár með þeim afleiðingum að vistkerfið verður jákvæðara í heild fyrir fiskinytjastofna.

Svend-Aage Malmberg, haffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, segir að undanfarin fjögur ár hafi verið hlýrri og saltari sjór við landið heldur en verið hafi í nokkuð langan tíma þar á undan, og þá sérstaklega fyrir norðan og austan, heldur en var á nokkuð löngum tíma þar áður. Erfitt er að henda reiður á ástæðum þessara breytinga sem orsakast af sveiflum í lífríkinu og straumum sunnan og norðan úr höfum.

"Þessar breytingar til batnaðar hafa verið í fjögur ár a.m.k. á miðunum við landið. Þar er meiri útbreiðsla á hlýrri sjó sunnan úr Atlantshafinu og hann er saltari líka. Við teljum yfirleitt að slíkar breytingar séu jákvæðar og teljum þetta vera gott fyrir vistkerfið í heild og höfum reynslu af því líka."

Svend segir erfitt að meta hvaða áhrif breytingarnar hafi á einstaka fiskistofna en almennt séð hafi ástandið í sjónum á undanförnum misserum verið að mestu í takt við ástandið sem var fyrir hafísárin á sjöunda áratugnum og hafi náð sér nokkuð vel á strik. Mestu sviptingarnar eru fyrir norðan og austan landið þar sem kaldi sjórinn kemur úr norðri á móti hlýja sjónum og geta sveiflurnar orðið allt frá 0 upp í 5 gráður.

Þrátt fyrir að erfitt sé að meta áhrif á einstaka fiskistofna segir Svend að benda megi á að samkvæmt nýjum niðurstöðum Hafrannsóknastofnunar á stofnstærð þorsksins séu góðir, ungir árgangar á leiðinni, og það sé í takt við það að árferði hafi farið batnandi á undanförnum árum. Þá hafi komið mjög góðar niðurstöður í ljós í vorleiðangri Hafró, sem kynntar verða fljótlega.