Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Inga Jóna Þórðardóttir og Júlíus Vífill Ingvarsson á fundi Sjálfstæðismanna um ársreikninga Reykjavíkurborgar.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, Inga Jóna Þórðardóttir og Júlíus Vífill Ingvarsson á fundi Sjálfstæðismanna um ársreikninga Reykjavíkurborgar.
FULLTRÚAR Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur gagnrýndu ársreikninga borgarinnar harkalega á blaðamannafundi í gær og segir Inga Jóna Þórðardóttir, oddviti flokksins, að reikningarnir einkennist af gríðarlegri skuldasöfnun á tímum góðæris og...

FULLTRÚAR Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur gagnrýndu ársreikninga borgarinnar harkalega á blaðamannafundi í gær og segir Inga Jóna Þórðardóttir, oddviti flokksins, að reikningarnir einkennist af gríðarlegri skuldasöfnun á tímum góðæris og tapreksturs fyrirtækja í eigu borgarinnar, sem kjörnir fulltrúar eigi ekki undir neinum kringumstæðum að sjá um rekstur á. Þá sagði Inga Jóna að í kynningu borgarstjóra á ársreikningum væri ekki dregin upp rétt mynd af fjárhagsstöðu borgarinnar.

"Það sem einkennir ársreikninginn er mjög mikil hækkun skatttekna og um leið hækkun útgjalda. En það sem gerist í þessari uppsveiflu er að hún er ekki nýtt, þessar auknu skatttekjur, til að greiða niður skuldir. Á fréttamannafundi borgarstjóra var fjallað um að náðst hefði verulegur tekjuafgangur hjá borgarsjóði. Þar nefndi borgarstjóri að tekjuafangurinn á árinu 2000 væri 1.919 milljónir króna. Sú tala er fengin af tveimur tölum, það er annars vegar rekstrarafgangur sem eru 966 milljónir og framlög til lífeyrisskuldbindinga 952 milljónir. Ég hlýt að vekja athygli á því að innifalið í þessari tölu er sala og uppgjör vegna Sjúkrahúss Reykjavíkur upp á 1.626 milljónir króna. Þannig að þegar sú tala er tekin út er raunverulegur tekjuafgangur 293 milljónir króna og ef við skoðum hann óháð lífeyrisframlaginu, þá erum við með raunverulegan rekstrarhalla."

Að sögn Ingu Jónu leggja sjálfstæðismenn megináherslu á að draga fram hve skuldir borgarinnar hafi aukist gríðarlega frá því að R-listinn tók við völdum árið 1994. Á þeim tíma hafi hreinar skuldir borgarinnar aukist úr 3,7 milljörðum árið 1993 í tæpa 23 milljarða árið 2000 og samkvæmt áætlun verði hreinar skuldir borgarinnar orðnar tæpir 27 milljarðar á þessu ári. Þá sagði Inga Jóna að á árunum 1995 til 1997 hafi verið gengið á eignir borgarinnar og innstæður sjóða hjá einstökum stofnunum borgarinnar.

Inga Jóna sagði skuldir borgarinnar hafa aukist um 8 milljónir á hverjum degi á valdatíð R-listans og áhrif þeirrar skuldsetningar myndu fyrr en síðar lenda á borgarbúum. Þá væri þróunin sláandi í samanburði við önnur sveitarfélög og ríkið, þar sem hreinar skuldir Reykjavíkurborgar hafi sjöfaldast á átta árum á meðan ríkið hafi greitt niður og minnkað sínar skuldir og önnur sveitarfélög aukið skuldir sínar lítillega.

Á fundinum kom fram að sjálfstæðismenn hafi ítrekað varað við því að borgin taki á sig fjárhagslegar skuldbindingar með þátttöku í áhættusömum atvinnurekstri og reynslan af rekstri Línu.Nets sýni að þau varnaðarorð hafi síst verið of gætileg. Inga Jóna sagði reikninga fyrirtækisins vera nýtt innlegg í ársreikninga Reykjavíkurborgar sem gerði að verkum að ársreikningurinn sýndi nú allt aðra mynd en áður hefði sést.

"Það er að segja mynd af athafnastarfsemi kjörinna fulltrúa í verkefnum og fyrirtækjarekstri sem að okkar áliti kjörnir fulltrúar eiga ekki að standa í undir nokkrum kringumstæðum og ekki á að nota fjármuni almennings til."

Að sögn Ingu Jónu er það ekki alls kostar rétt sem borgarstjóri hafi haldið fram, að í ársreikningum borgarinnar væri um óverulegt frávik að ræða frá áætlunum. Sem dæmi um veruleg frávik megi taka reikninga Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfyrirtækisins Línu.Nets. Áætlaðar heildarskuldir Orkuveitunnar hafi verið 11,7 milljarðar árið 2000 en samkvæmt ársreikningum nemi skuldirnar 14,9 milljörðum og hafi því aukist um tæp 27% frá áætlun. Þá hafi nettóskuldir án lífeyrisskuldbindinga aukist um 34,5%. Hagnaður Orkuveitunnar hafi verið áætlaður 619 milljónir árið 2000 en hafi hins vegar aðeins numið 389 milljónum, sem er 37% minna en gert var ráð fyrir.

"Meginskýringin á þessari breytingu Orkuveitunnar er taprekstur á Línu.Neti hf. og þá erum við komin að því fyrirtæki sem sýnir veruleg frávik," sagði Inga Jóna. Áætlanir hafi gert ráð fyrir að heildarskuldir fyrirtækisins myndu nema 390 milljónum króna árið 2000 en samkvæmt ársreikningum nema þær 1,6 milljörðum króna, sem er tæplega 324% aukning skulda. Þá nam tap fyrirtækisins á síðasta ári 471 milljón króna en áætlanir gerðu ráð fyrir 149 milljóna króna tapi.

Heildarskuldir jukust um 5,5 milljarða umfram áætlun

Inga Jóna sagði Orkuveituna upphaflega hafa sett 200 milljónir inn í fyrirtækið og þegar sverfa fór að á síðasta ári hafi verið ákveðið að auka hlutaféð og Orkuveitan hafi þá keypt hlutafé fyrir tæpar 100 milljónir króna. "Í þessari viku kom síðan í ljós að enn þarf að sækja peninga í sjóði Orkuveitunnar til að standa undir þessu fyrirtæki. Nú var verið að samþykkja viðbótarhlutafjáraukningu í þetta fyrirtæki sem mun kosta Orkuveitu Reykjavíkur 220 milljónir."

Að sögn Ingu Jónu er þessi ákvörðun tekin þrátt fyrir að Helgi Hjörvar, forseti borgarstjórnar og varaformaður Línu.Nets, hafi í samtali við Viðskiptablaðið 2. maí sl. lýst því yfir að ekki stæði til að Reykjavíkurborg eða fyrirtæki á hennar vegum legðu aukið fjármagn í rekstur fyrirtækisins.

Þá tók Inga Jóna fleiri dæmi um frávik frá áætlunum sem fram koma í ársreikningum borgarinnar. Þar kemur fram að heildarskuldir Reykjavíkurborgar án lífeyrisskuldbindinga, þ.e. samstæðunnar allrar með borgarsjóði og fyrirtækjum í eigu borgarinnar, hafi aukist um 5,5 milljarða króna umfram áætlun, eða 18,3%, og nettóskuldir án lífeyrisskuldbindinga hafi aukist um 4,8 milljarða, eða 26,5%. Framlag til SVR hafi verið aukið um 20,1% frá áætlun og tap hafi orðið á rekstrinum um 354 milljónir þó að gert hafi verið ráð fyrir að reksturinn yrði rekinn á sléttu.

J0afnframt tók Inga Jóna sem dæmi að heildarskuldir Félagsbústaða hf. hefðu aukist um 12,7% og nettóskuldir um 14,1%, eða um 607 milljónir. Þá sýni ársreikningar að Reykjavíkurhöfn sé í fyrsta skipti í sögunni rekin með tapi og heildarskuldir hafi aukist um 34% og nettóskuldir án lífeyrisskuldbindinga aukist úr 90 milljónum í 441 milljón króna, sem er 390% aukning.