HÆSTIRÉTTUR hefur dæmt mann til að greiða Frjálsa fjárfestingarbankanum 547 þúsund krónur ásamt dráttarvöxtum frá árinu 1996.

HÆSTIRÉTTUR hefur dæmt mann til að greiða Frjálsa fjárfestingarbankanum 547 þúsund krónur ásamt dráttarvöxtum frá árinu 1996.

Um var að ræða skuld sem myndaðist vegna taps mannsins á verðbréfaviðskiptum sem Fjárfestingarfélagið Skandia sá um fyrir hann á árunum 1993-1996. Viðskiptin voru aðallega um afleiðusamninga, einkum valréttarsamninga. Á viðskiptunum tapaði maðurinn alls 1.999.620 krónum. Hann lagði í upphafi fram fé til viðskiptanna, en þegar á leið lagði Skandia út fyrir skuldbindingum hans og myndaðist við það skuld mannsins við félagið. Frjálsi fjárfestingarbankinn, sem tók yfir réttindi og skyldur Skandia, krafði manninn um skuldina.

Maðurinn hafnaði greiðsluskyldu og bar því einkum við að til viðskiptanna hefði að nokkru verið stofnað án síns samþykkis, auk þess sem ráðgjöf Skandia hefði verið ábótavant. Hæstiréttur taldi hins vegar að þótt maðurinn hefði ekki samþykkt öll viðskiptin hefði hann með athafnaleysi sínu orðið skuldbundinn af þeim.

Sýnt þótti að manninum hefði verið kynnt eðli viðskiptanna og sú áhætta sem þeim fylgdi. Var því ekki fallist á að ráðgjöfinni hefði verið svo ábótavant að skuldbindingar mannsins við Skandia væru niður fallnar eða að stofnast hefði til bótaréttar hans á hendur Skandia. Þótti það ekki hagga því að Skandia hafði vanrækt skyldu sína til að gera skriflegan samning við manninn.